miðvikudagur, desember 31, 2008

Gleðilegt ár

og takk fyrir gamla árið. En mikið skelfing var þetta leiðinlegt skaup :(

mánudagur, desember 29, 2008

Appelsínustelpan

Fór í bókasafnið í dag og endurnýjaði skammtinn. Náði í m.a. í Appelsínustelpuna eftir Jostein Gaarder. Falleg ástarsaga og heimspekilegar vangaveltur eins og honum er einum lagið. Mæli með þessari bók. Samt er Kapalgátan ennþá uppáhaldsbókin mín eftir hann. Sá þegar ég var að leita að þessari bók á netinu um helgina að það sé búið að kvikmynda Appelsínustelpuna, hún verður frumsýnd í Noregi í febrúarlok. Mikið væri nú gaman að fá að sjá hana hérna líka.

sunnudagur, desember 28, 2008

Bókalestur

Í gær las ég Skuldadaga eftir Jökul Valsson og skemmti mér vel. Hann skrifar um dópdíler og ruglukoll á einstaklega skemmtilegan hátt. Í kynningunni segir að Matti sé hálflánlaus náungi. Ég verð nú bara að segja að hann sé ótrúlega heppinn.
Svo byrjaði ég aðeins á Nótt Úlfanna eftir Tom Egeland - hélt áfram í morgun og sleppti henni ekki fyrr en hún var búin. Hryllilega spennandi og skemmtileg. Heldur fullkomlega. Ég ætlaði út að labba á meðan það væri bjart. Kannski ég nái smáhring fyrst bókin er búin.

laugardagur, desember 27, 2008

Hvíldardagur gyðinga

155 látnir eftir loftárásir á Gaza. Er ekki sabbat í Ísrael? Hvíldardagur gyðinga?

3. í jólum

Lögurinn er spegilsléttur og bleik ský spegla sig í honum. Ég ætla út í labbitúr í góða veðrinu. Bóndi minn sefur eftir næturvaktina. Búin að gera jólahreingerningu í tölvupóstinum - undarlegt hvað maður geymir - eða gleymir að henda.

fimmtudagur, desember 25, 2008

Gleðileg jól

Jólatréð á planinu fyrir utan Mjólkurstöðina dansar magadans og bjölluómur heyrist frá Glitnishreindýrinu í glugganum. Ég er pakksödd og les Verði sáttmálans eftir Tom Egeland.

mánudagur, desember 22, 2008

Tölfræði og skautasvell

Rok og rigning. Sá skauta í nytjamarkaðnum fyrr í dag - hefði átt að kaupa svoleiðis því skautar eru skynsamlegasti fótabúnaðurinn hérna í augnablikinu. Skruppum aðeins út í sveit eftir hádegið og á meðan við stoppuðum breyttist veðrið skyndilega og við þurftum að lúsast heim á glerhálum þjóðveginum. Æsispennandi og góð æfing fyrir magavöðvana.
Síðdegis kíkti ég inn á HÍ-póstinn minn og sá kveðju frá tölfræðikennaranum - sem sagði að einkunnir væru komnar inn á vefinn og enginn hefði fallið. Það lá við að ég færi tvöfalt flikkflakk afturábak af kæti. Og enn frekar eftir að ég komst inn á vefinn og sá ég var langt frá falli.

Vill einhver kaupa tölfræðibækur? :-):-):-):-):-):-):-)

sunnudagur, desember 21, 2008

Vetrarsólstöður

Það er svo fallegt að standa hérna í 7. himni og horfa yfir ljósum prýdda Egilsstaði og Fellabæinn. Snjór yfir öllu, jólatré bæði við mjólkurstöðina og annað lengra í burtu við kaupfélagið. En annars myrkur. Þetta er eins og útlent jólakort. Ég tími ekki að fara að sofa.

sunnudagur, desember 14, 2008

sjúkk!

Búin að skrifa síðustu skýrslu fyrir jól. Fékk 2 íslenskufræðinga að lesa yfir - önnur nýkomin úr prófarkarnámskeiði. Þannig að allt ætti að vera í lagi - nema kannski innihaldið ...
Er að taka til og fékk mér púrtvínsglas úr flösku sem lá undir skemmdum. :-) Hvissleis geng det hjá þér frænka?

fimmtudagur, desember 11, 2008

Ólafía - þáttur á Rás 1

Árið 1976 var ég á leið eitthvað annað og stoppaði í Osló, ætlaði að vera í viku, en var eitthvað aðeins lengur eða 9 ár. En þarna fyrsta veturinn minn fór ég í menntaskóla, sumarhýran dugði stutt svo ég varð að finna mér vinnu og einhver mér vinveittur benti mér á kaffihús á Rodelökku sem vantaði aðstoð. Ég vann þar um veturinn 2 tíma daglega eftir skóla. Fóðraði nokkra kalla sem mest voru fastagestir með kaffi og aðallega brauði með spæleggi og karbonaði ef ég man rétt. Það var ekki fjölbreyttur matseðillinn en gekk alveg minnir mig. Allavega hélt það í mér lífi þann vetur. En það var ekki það sem ég ætlaði að tala um - heldur Mekki - kallinn sem átti kaffihúsið sagði við mig einn daginn þegar hann yfirgaf staðinn. Þegar þú kemur á morgun skaltu koma í gegnum garðinn og skoða styttuna sem er í honum miðjum. Ég spurði af hverju hún væri og hann bara glotti og sagði - farðu bara og gáðu að því.

Ég náttúrlega forvitin og fór og kíkti og varð furðu sleginn þegar ég fann styttu af peysufatakonu sem hét íslensku nafni og svo stóð eitthvað fallegt undir. Þegar ég kom í vinnunna sagði hann mér að þessi kona hefði verið engill í hverfinu þegar hann var barn og hefði gert ótrúlegustu hluti fyrir fátæka. Ég man ekki til að hafa nokkurntíman fyrr heyrt um Ólafíu Jóhannsdóttur. Mörgum árum seinna var ég á Kvinneforum í Ósló og dró nokkrar vinkonur mínar í garðinn og sýndi þeim Ólafíu. Þær þekktu hana heldur ekki. En núna er búið að skrifa um hana bók eða bækur og leikrit. Henni er gert hærra undir höfði. Styttan - eða brjóstmyndin af henni í HÍ er orðin sýnilege en styttan í Ósló var færð úr friðsæla garðinum við Helgesensgötu þar sem fáir sáu hana yfir á subbulegt torg sem dúfurnar skíta á hana.

Það var þáttur um Ólafíu á Rás 1 í kvöld - endurtekinn frá 2003. - Fínn þáttur - þess vegna komu þessar minningar upp.

þriðjudagur, desember 09, 2008

Prentfrelsi

Er að vinna í eigindlegri aðferðafræði og rakst á þetta:

"... As the old saw has it, freedom of the press is reserved for the person who owns one."

Sitat frá Harry F. Wolcott: Writing Up Qualitative Research s. 64

Hann var nú reyndar bara að skrifa um hvernig maður ætti að skrifa en mér fannst þetta eiga vel við.

sunnudagur, desember 07, 2008

Járnkarlar og kerlingar

Tveir Kópavogsbúar voru að klára Ironman í Ástralíu. Hann var 11 klukkutíma og 41 mínútu og hún var 14 tíma og nokkrar sekúndur. Ég af fávisku minni hélt að þetta væri íþróttafrétt - en hún virðist ekki vera það af því að þau unnu ekki og þau voru ekki með neinn bolta. URR - en mikið rosalega finnst mér þau æðislega flott.
Í Ironman syndir maður fyrst 3,9 km - í sjónum -, svo hjólar maður 180 km og endar á því að hlaupa eitt maraþon... altsvo 42,2 km. Einhver til í að byrja að æfa ...?

fimmtudagur, desember 04, 2008

Svæðisútvarpið lifir

Bravó - þeir hættu við að slátra svæðisútvarpinu! Jahérnahér - ég er svo hlessa - en mjög ánægð.

mánudagur, desember 01, 2008

Það er ekki alveg öllum sama

Það eru öflugar RÚV-umræður á þessari bloggsíðu.

laugardagur, nóvember 29, 2008

flottar myndir - fín tónlist


Bara rakst á þetta þegar ég var að skoða Flickr áðan - myndinar góðar og tónlistin skemmir ekki ...

Austurvöllur

Öflugur fundur á Austurvelli þó það væri skítkalt. Ég hugsaði með mér að við ættum að gera eins og mörgæsirnar - mynda þéttan hring og skipta svo reglulega út hverjir standa yst. Mér finnst skyldumæting - þó það taki þrjá til fjóra tíma frá próflestri - fyndið hvað allt tekur langan tíma.
Ræðumenn dagsins voru flottir, Stefán Jónsson leikstjóri, Kristín Tómasdóttir frístundaráðgjafi og Illugi Jökulsson rithöfundur. Tæpitungulaus og skelegg.
Mér datt í hug þegar ég var að hlusta á Illuga - bara á mínum vinnustað misstu 44 vinnuna - 21 fastráðinn og 23 verktakar - og ég geri ráð fyrir að það séu fleiri í raun. Því ég hugsa að ég sé ekki inn í þessari tölu. Ég var bara ráðin til áramóta og ég veit það er svoleiðis með fleiri. Samningarnir verða bara ekki endurnýjaðir. Ég hitti fyrrverandi vinnufélaga á Austurvelli - hann heldur líka að þessi tvö sem ég minntist á í gær hafi verið látin fjúka af því þau voru í kjaramálunum fyrir stéttarfélagið sitt. Það væri áhugavert að vita hvort stéttarfélög geta gert eitthvað í svoleiðis málum.
p.s. Gleymdi - það voru táknmálstúlkar á sviðinu á Austurvelli sem túlkuðu allt jafnóðum. Frábært framtak!

föstudagur, nóvember 28, 2008

Í nettu sjokki

Gríðarlega erfiður dagur í vinnunni. Sá fyrst að Fréttablaðið spáði að 30 RÚV-urum yrði sagt upp - svo var ég kölluð inn og sagt að ég fengi ekki áframhaldandi vinnu eftir áramót sem er auðvitað slæmt - en kom svosem ekkert á óvart - ég var jú bara ráðin til áramóta.
En svo komu sjokkfréttirnar - 21 sagt upp og þar á meðal mörgum góðum og reyndum starfsmönnum. Þar á meðal var m.a starfsfólk sem hafði staðið í að semja um kjör fyrir sína starfsfélaga - en þau voru ekki trúnaðarmenn.

mánudagur, nóvember 24, 2008

laugardagur, nóvember 22, 2008

Tíðnitöflur, mótmæli og kjallaraflóð

Gríðarlegt annríki í dag. Komin niður í Háskóla klukkan 10. Vann með Kate við tíðnitöflur og annað bráðskemmtilegt til 14.30. Skokkaði þá niður á Austurvöll. Þar var lúðarasveit, ættjarðarlög, mjög beitt og flott lögfræðinemastelpa sem hélt þrumurræðu og fékk alla með sér, Gerður, sem einu sinni var kennd við skemmtilegustu fatabúðina í bænum, kom með athyglisverða ræðu og sagnfræðinemi kláraði dæmið. Og Hörður býr til ramma utan um þetta allt. Alveg ótrúlegt - og ég var mest hissa á að það virtist vera fleira fólk núna en síðast.

Svo var Jón Sigurðsson hjúpaður bleikum klæðum og risaborði með IMF-skrímslið að gleypa Island hengdur upp á eitt húsið. Við erum alveg að ná þessu hvernig á að mótmæla held ég. Ánægð með það. Ég skundaði svo aftur upp í skóla til að klára verkefnið en einhver hluti skrapp upp á löggustöð til að mótmæla handtöku mótmælenda í gær.

Svo þar sem við vorum að klára verkefnið hringdi farsíminn minn sem yfirleitt er til friðs og mér var tilkynnt að það væri flóð í kjallaranum. Fnykurinn var ólýsanlegur þegar ég kom heim. Menn að dæla upp og allt á fullu. Fulltrúi frá Sjóvá mætti - það er húseigendatryggingin og innbústrygging hjá sumum - en við hin sem erum annarsstaðar þurfum að hafa meira fyrir hlutunum. Ekki komu þeir frá VÍS eða Verði. Urr! Sem betur fer var lítið á gólfinu í minni geymslu - en lyktin - jæks.

mánudagur, nóvember 17, 2008

Gott útvarpsviðtal

Pétur Halldórsson á Akureyri talaði í morgun við Agnesi Sigurðardóttur á Árskógssandi sem startaði bruggverksmiðju þar. Aldeilis frábært viðtal. Mæli með því. Tengillinn er hérna og það er hægt að hlusta á þetta í hálfan mánuð. Hlusta strax og má líka hlusta aftur ef svartsýnin hellist yfir fólk - Mikið assgoti er þetta gott viðtal og dugleg stelpa. Já - og svo er bjórinn líka góður - er búin að smakka hann.

sunnudagur, nóvember 16, 2008

Statistikk og James Bond

Við bættum við 30 spurningalistum til að tölfræðiverkefnið verði marktækt(vonandi). Kate hefur staðið við bókasafnsdyrnar síðustu daga og kastað sér yfir alla sem hafa stungið þar inn nefi (held ég). Ég barði upplýsingarnar inn í tölvuna síðdegis og fór að því loknu á James Bond í Háskólabíói. Bondinn er kúl :-)

laugardagur, nóvember 15, 2008

Koma svo

Klæða sig vel og koma á Austurvöll, og muna ullarsokkar, vetlingar, húfa og trefill í viðbót við allt hitt!

þriðjudagur, nóvember 11, 2008

Hagfræði fyrir byrjendur

Þarna fékk ég senda dæmisögu sem var auðvelt að skilja :-)
Í þorpi einu birtist maður og kvaðst vilja kaupa apa af þorpsbúum á 1000 krónur stykkið. Þar sem mikið var um apa í nágrenni þorpsins fóru þorpsbúar að veiða apana og selja manninum þá. Maðurinn keypti þúsundir apa af þorpsbúum á 1000 krónur. Þegar framboðið fór að minnka bauðst maðurinn til að borga 2000 krónur fyrir apann. Aftur jókst framboðið um tíma, en síðan minnkaði það enn frekar og hætti loks alveg þar sem erfiðara var fyrir þorpsbúa að finna fleiri apa til að selja.

Maðurinn tilkynnti þá að hann mundi borga 5000 krónur fyrir hvern apa sem hann fengi, en hann þyrfti að skreppa frá í smá tíma og aðstoðarmaður hans mundi sjá um kaupin á meðan. Eftir að maðurinn var farin hóaði aðstoðarmaðurinn þorpsbúum saman og bauðst til að selja þeim apana, sem voru geymdir í búrum, á 3500 krónur stykkið. Fólkið gæti svo þegar maðurinn kæmi aftur selt honum apana á 5000 krónur. Þorpsbúar söfnuðu saman öllu sínu sparifé og keyptu apana af aðstoðarmanninum. Síðan hefur ekkert spurst til mannsins eða aðstoðarmannsins. Ofangreinda sögu fékk ég senda áðan. Eftir að hafa lesið hana skildi ég allt í einu betur íslenska bankakerfið og hlutabréfamarkaðinn.

mánudagur, nóvember 10, 2008

Stærsta bókabúð í heimi á netinu

Google Signs a Deal to e-Publish Out-of-Print Books

Þetta kom í New York Times í morgun.

laugardagur, nóvember 08, 2008

Fjölmenni á Austurvelli

Mótmælin á Austurvelli fóru að mestu leyti friðsamlega fram.
En vélhjólamenn eyddu eldsneyti fyrir fundinn og hjúpuðu Alþingishúsið með reyk.


Einhver læddist upp á þak á Alþingishúsi með Bónusfána


Fáninn blakti þarna í örfáar mínútur áður en þakglugginn opnaðist og sá guli hvarf

En þarna voru líka fluttar frábærar ræður, meðal annars benti Sigurbjörg Árnadóttir, sem er að upplifa kreppuna í annað sinn, okkur á að finnska leiðin er ekki til fyrirmyndar og Einar Már fór á kostum eins og venjulega.

föstudagur, nóvember 07, 2008

Gamall sannleikur og nýr

Halldór Laxness lýsir íslenskum athafnamönnum í Kristnihaldi undir jökli.

Spurt er: Hvað er hraðfrystihús?
Og svarað: ?

Það eru íslensk fyrirtæki.
Spaugararnir reisa þau fyrir styrk frá ríkinu,
síðan fá þeir styrk af ríkinu til að reka þau,
þvínæst láta þeir ríkið borga allar skuldir
en verða seinast gjaldþrota og láta
ríkið bera gjaldþrotið.
Ef svo slysalega vill til að einhvern tíma kemur
eyrir í kassann þá fara þessir grínistar út að skemmta sér"

(Kristnihald undir Jökli, bls. 301)

fimmtudagur, nóvember 06, 2008

Grazie Roberto!

Scudit, Scuola d'Italiano Roma
Held það sé ekki nokkur spurning hvert Íslendingar sem ætla að læra ítölsku fara. Kíkið á heimasíðuna. :-) Annars ætla ég bara að fara að brýna heykvíslina fyrir laugardaginn.

laugardagur, nóvember 01, 2008

Hamingja og mótmæli

Happiness is nothing more than good health and a bad memory.
- Albert Schweitzer

Fór og labbaði niður frá Hlemmi niður á Austurvöll í góðum félagsskap. Það var meira fútt í mótmælunum í dag en síðasta laugardag en þó má bæta í betur. þarna talaði alveg fantagóður ræðumaður - sjúkraliði sem bar saman hvað það kostaði sem bráðvantar á spítalana og bruðlið í ríkisstjórninni. Vona að ræðan komi einhverstaðar sem aðrir geta skoðað hana.
Svo fór ég og kíkti á handverks- og hönnunarsýninguna í Ráðhúsinu. Fullt af fallegum og eigulegum hlutum. Ég mæli t.d. með trjánum hennar Láru og svo er skartið hennar Nadine alveg yndisleg.

föstudagur, október 31, 2008

bókasöfn og innanhússhönnun

þetta fann ég á útlenskri bloggsíðu sem fjallar mikið um bókasöfn. Marbendill hló og hugsaði um ákveðið bókasafn.

overhead at an unnamed library

A patron responds to the new carpeting:

“I can tell that a degree in librarianship does not involve interior design.”

fimmtudagur, október 30, 2008

Veruleikinn 1968?


Var að leita að grein í Mogganum frá nóvember 1968 þegar ég fann þessa mynd

þriðjudagur, október 28, 2008

Ísaldirnar koma og fara

Ég var að hlusta á dægurmálaútvarp Rásar 2 frá 1988. Fyrst frá 17. október það ár, þá var allt brjálað út af vísindahvalveiðum, því Grænfriðungar voru að bögga okkur og allir voru að hætta eða hættir að kaupa af okkur fisk í mótmælaskyni. Man ekkert hvernig það fór en það var greinilega gríðarleg kreppa í þjóðfélaginu. Svo fann ég upptöku frá borgarfundi frá 5. september trúi ég. Þá var allt brjálað - efnahagslífið í rúst, launahækkun sem lýðurinn átti að fá hafði verið fryst og gjaldeyrisforðinn í núlli. Mikið er gott að vera svona fljót að gleyma. En í alvöru - það mætti spila þessar upptökur aftur.

laugardagur, október 25, 2008

Mótmæli?

Íslendingar eru alveg einstaklega undarleg tegund. Þarna lufsumst við nokkur niður í bæ til að mótmæla - já meira að segja ég. Mætti niður á Austurvöll klukkan 15, þar var maður í pontu mjög sár yfir að einhver annar hefði auglýst mótmælagöngu klukkan 16. En það var sungið og Einar Már hélt þrusugóða ræðu og Guðmundur Gunnars aðra. Við mótmælendurnir stóðum þarna stillt og prúð og klöppuðum á viðeigandi stöðum. Svo var korters hlé - ég skrapp inn í Pennann og hnusaði af öllum bókunum sem mig langar að lesa og fór svo aftur út af Austurvöll og kom mér í gönguna og rölti upp að Ráðherrabústað. Það var líka afskaplega prúð ganga - reyndar var bara einhver bílstjóri með óspektir og flautaði óspart því hann komst ekkert áfram.

Við ráðherrabústaðinn var vænn hópur - m.a. svartir fánar og ég held einn rauður. Örstutt ræðuhöld og sum beittari en önnur og Arnþrúði Karlsdóttur tókst að koma smá lífi í fólki. Svo vöppuðum við bara heim sæl og glöð og þykjumst hafa verið úti og mótmælt. Ekki misskilja mig - ég mæli ekki með að við förum og brjótum glugga og hlöðum götuvígi. En ég meina - þetta er það tamdasta sem ég hef nokkurn tímann upplifað! Það heyrir enginn í okkur ef við höldum kjafti. Það er ekki nóg að bara klappa ef einhver segir eitthvað.

miðvikudagur, október 22, 2008

Reykjavík - Rotterdam

Ég fór á bíó áðan - Reykjavík - Rotterdam í Smárabíó - aldeilis frábær skemmtun. Efðist smá stund um val saumó á bíómynd því þetta leit skuggalega út á tímabili en þetta var frábært. Grafalvarleg skemmtileg hasarmynd. Þótti líka gaman að sjá uppáhaldsleikarana mína leika vonda lúða. En fyrir þá sem ætla í bíó er bent á að maður þarf ekki að mæta fyrr en 15 mínútum eftir auglýstan bíótíma. Reyna allavega að forðast auglýsingarnar á undan - þær eru hundleiðinlegar og spilaðar heyrnarskemmandi hátt.

mánudagur, október 20, 2008

fyllibyttuvörn á tölvupóst

Í þessari grein í NYT er sagt að það sé hægt að setja inn vörn á Gmail svo fólk skrifi ekki póst þegar það er drukkið. Það þyrfti trúlega að setja svoleiðis á fleiri staði ...

fimmtudagur, október 16, 2008

Tölfræði

Mig minnir að ég hafi einu sinni verið góð í stærðfræði. Geta svoleiðis hæfileikar glatast af notkunarleysi???

þriðjudagur, október 14, 2008

Draumfarir

Mig dreymdi í nótt að ég var að róa upp straumþunga á. Komst slatta upp með henni, undir brú en gafst upp og komst upp á bakkann hægra megin. Ætlaði að hvíla mig þar og taka svo annan áfanga seinna. Svo kom einhver framhaldsdraumur - þá var ég líka á kajaknum en á hraðri leið niður Hvítá, fyrir neðan Selfoss, í átt til sjávar. Hvort ætli þetta hafi með námið að gera eða fjármálin?

miðvikudagur, október 08, 2008

íslenskur húmor

Þetta fékk ég frá vinkonu minni í dag og finnst upplagt að deila með ykkur.

Kæru vinir
Á þessum síðustu og verstu tímum verðum við að gæta þess að tapa ekki
húmornum, þó að hlutabréfin séu töpuð...

An American said:

"We have George Bush, Stevie Wonder, Bob Hope and Johnny Cash."

The Icelander replied:
"We have Geir Haarde, no Wonder, no Hope and no Cash."

mánudagur, október 06, 2008

bankasöngurinn

Fréttir dagsins fullar af alvöruþunga - og það besta er að fólki er ráðlagt að leita til fjármálaráðgjafa!!!! Bíddu bíddu - hafa þeir ekki verið að gefa góð ráð?

En ef ykkur vantar eitthvað til að brosa yfir þá fann ég þetta á síðuninni hans Elíasar áðan og vill endilega fá ykkur til að gleðjast örlítið líka Fidelity Fiduciary Bank Sing Along. Vesgú - í boði Mary Poppins. Og hér er önnur útgáfa í boði Monty Python.

sunnudagur, október 05, 2008

kostir þess að vera námsmaður

Einn af kostunum við að vera í skóla er að maður hefur ekki tíma til að hugsa um fjárhagslega þrengingar og fjármál landsins á heljarþröm. Mér finnst þetta bara áhugaverð læti þegar ég heyri eitthvað um þetta. Man reyndar mun verri tíma þegar ég átti ekki fyrir tannkremi og varð að nota sápu (oj!)og matur var af mjög skornum skammti. Vitna líka oft til orða listakonunnar - mig minnir það hafi verið Júlíana Sveinsdóttir sem sagði, þegar ríkir kallar í Danmörku voru að stúta sér því þeir höfðu tapað einhverju af aurunum sínum í bankahruni, "Nú er gott að vera blönk". Auðvitað er vont að tapa peningum en fj..... þetta eru bara peningar. Það hafa komið kreppur áður - þetta eru eins og ísaldir - þær líða hjá.
Annað merkilegt sem mér liggur á hjarta - ég er búin að vera sjónvarpslaus í rúmt ár. Er farin að vinna aftur á RÚV-inu - lenti í veislu í kvöld þar sem var mikið verið að tala um sjónvarpsefni - (gott innlendt sjónvarpsefni - því var hrósað upp í hástert) ... og ég kom alveg af hólsfjöllum - pínlegt. Kannski ég eigi að þiggja gamalt sjónvarp ...

fimmtudagur, október 02, 2008

Fyrsti snjórinn

Ég get svo svarið það - það kyngir niður snjó. Ég hló í morgun og vorkenndi Bjössa fyrir að vera fyrir austan þegar hannn sagði að það hefði allt verið hvítt úti þegar hann vaknaði ... en ég þurfti að skafa í fyrsta skipti í morgun og svo nú í kvöld byrjaði að snjóa - og snjóa - og snjóa. En snjórinn er farinn á Egilsstöðum og þar hafði hlýnað. Þetta verður áhugavert.
Ég fór jú á fyrirlestur fyrir ekki svo margt löngu þar sem því var haldið fram að það væri kuldaskeið í vændum og það brysti á fljótlega. Náunginn sagði 2011 eða 2012. BRRR. Það er eins gott að hingað kom í dag hersveit pípulagningamanna og þeir löguðu ofnakerfið í allri blokkinni svo her er nú hlýtt og notarlegt. En eins gott að ná í vetrarskó og trefla og húfur og búa sig undir að takast á við vetrarríkið með bros á vör.

mánudagur, september 29, 2008

Eitt verkefni frá

Loksins búin að ganga frá fyrsta viðtalinu í eigindlegum! Fólk er að tala um að þetta taki 8 tíma - átta tíma - kjaftæði. Kannski tekur það átta tíma að afrita viðtalið - svo þarf maður að skrifa allavegana hugleiðinga í kringum það ... Jæja - allavega er ég hætt núna og búin að prenta út 32! siður. Ætla út að labba einn hring - svo er það tölfræðin fyrir morgundaginn. Gaman að vera í skóla - ekki satt? (Jú annars - kosturinn er sá að maður gleymir að pæla í kreppu og bönkum og þjóðfélögum á heljarþröm)

laugardagur, september 27, 2008

afritun og ofurhetjur

Mikið er miklu auðveldara að afrita þetta ... viðtal þegar maður er búin að koma sér upp almennilegum græjum (Ástarþakkir Þorgerður snillingur) Annars hef ég ekki verið nógu dugleg að halda mér að verki - þarf að setja í gírinn á morgun - klára viðtalið og þýða tölfræðispurningarnar yfir á norsku ... Það er sko nóg að gera.
Svo er ég búin að eignast nýja hetju - einn ágætur Íslendingur afrekaði að hlaupa Spörtuofurþonið á 34 tímum. Er búin að vera að fylgjast blogginu hans í nokkurn tíma. Hann hljóp Laugaveginn í sumar en þótti ekki nóg og bætti við Fimmvörðuhálsi - svo hefur hann verið að dunda sér við hina ýmsu fjallvegi. Ég dáist að svona fólki - honum, Bibbu járnkerlingu og öðrum ofurhetjum. (Er einhver öfundartónn í þessu bloggi?)

fimmtudagur, september 25, 2008

vinna

Byrjaði að vinna aftur á mínum gamla vinnustað í gær. Reyndar á safninu. En bara 30%. Fann það í fyrrakvöld að mig hlakkaði til að mæta. Morguninn leið líka eins og örskot en ég er alveg út að aka - á ég að ýta á F2 - núna - eða F5 eða enter - og á ég að gera einu sinni eða tvisvar ... En þetta kemur allt. Og gamlir vinnufélagar fögnuðum mér vel. Svo yndislegt. En þetta tekur auðvitað tímann frá náminu. Mér tókst að ná inn 9 mínútum af viðtalinu í gærkvöld. Þá á ég eftir 32 ... YÆKS! Hvernig fer fólk að sem vinnur við svona!

þriðjudagur, september 23, 2008

Aðferðafræði

Búin að taka fyrsta viðtalið - hitti afskaplega viðræðugóða og elskulega konu. Búin að afrita heilar 8 mínútur og 12 sekúndur - það þýðir að ég á bara 41 mínútu eftir! Það er fínt að afrita það sem hún segir en mínar setningar eru hálfar og tafsandi. Hm - og svo segi ég dálítið mikið OK - Ingimundur frændi minn reyndi mikið að venja mig af þessu þegar var í sveit hjá honum þegar ég var svona 10 og 11 ára. Man ég reyndi - kannski ég ætti að reyna betur núna :)

sunnudagur, september 21, 2008

Bílastúss og Herba

Þarf að fara á morgun og kaupa bremsuklossa á bílinn minn og eitthvað járndót sem á að vera í nágrenni við bremsuklossana. Mér finnst að bílar ættu að vera viðhaldsfríir. En ég er samt heppinn að eiga góðan nágranna sem hefur gaman að því að klappa bílum. Gott þegar sá laghenti er langt í burtu, ekki mundi ég treysta mér í svona framkvæmdir.
Var á flottri Sportstefnu í Háskólabíói í dag - á vegum Herbalife. Þar var m.a. kynntur nýr sportdrykkur og fólk talaði um hvað Herba væri gott í allaveganna íþróttum. Ég vissi það nú reyndar - en mér fannst vanta besta vitnisburðinn. Gunnlaugur Júlíusson hljóp Laugaveginn í sumar - þótti víst ekki nóg og hljóp áfram Fimmvörðuhálsinn og þakkaði Herbasjeiknum fyrir jafna og góða orku. Það fannst mér sko meðmæli.

þriðjudagur, september 16, 2008

Haustlægðin

Haustlægðin er brjáluð fyrir utan gluggann minn. Aspirnar eru í fimleikum og reynitrén líka. Labbaði heim í gegnum dalinn síðdegis og varð blaut inn að skinni. Kópavogslækurinn þóttist vera fljót. Sem betur fer hafði ég haft vit á að setja plastpoka inn í bakpokann. Annars ætti ég trúlega mjög blautar skólabækur. Remdist í kvöld við að skrifa rannsóknaráætlun fyrir eigindlegar. Veit ekkert hvað ég er að gera. Gaman að því. Kannski ég viti meira um jól.

sunnudagur, september 14, 2008

félagslífið

Skemmtileg helgi. Byrjaði í fyrradag á því að fara með bókasafnfræðingum í heimsókn á fasteignamatið. Þar ver tekið vel á móti okkur og ég lærði slatta af hagnýtum hlutum. Fór ekki með krökkunum út á djammið. Hafði eytt fullmiklu um daginn og langaði þar að auki að fylgjast með hvernig Fjarðabyggð gekk í Útsvarinu. Grátlegt að þau töpuðu því þau voru alveg tryllingslega flink. Svo horfði ég á norsku myndina og hafði gaman af - en þýðandinn var greinilega ekki var ekkert mjög klár í norskri landafræði því hann þýddi Stavern yfir í Stavanger. Mjam - það má nú kannski fyrirgefa svoleiðis smáatriði.
Í gær var svo saumaklúbbnum boðið í Sporthúsið og í hádegismat til Rannveigar á eftir. Henni er einstaklega lagið að tala vel á móti fólki og bauð upp á mikið af gómsætri heimafenginni hollustu. Nam. Við borðuðum helling og fengum að vita hvað hafði helst gerstí sumar. Svo spíttist ég heim og skipti um föt og setti upp spariandlitið og fór í afmæli til frú Hildar sem hélt upp á sjötugsafmælið sitt. Það var alveg svakalega skemmtilegt. Þau höfðu tæmt íbúðina af meirihlutanum af húsgögnum og settu svo kex og vínber og einhver drykkjarföng á strategiska staði og svo átti bara fólk að sjá sjálft um að skemmta sér. Reyndar var sungið fyrir afmælisbarnið og hún kvittaði fyrir með að syngja afmælissönginn sem þau voru látin syngja í Tjarnarborg í den. Hafði aldrei heyrt hann áður en fannst hann flottur. Mér finnst svo skemmtilegt að pæla í aldri. Hildur er sjötug - en hún er samt bara stelpa - verður það eflaust alltaf.
Mikið er ég heppin að eiga svona skemmtilegar vinkonur.

fimmtudagur, september 11, 2008

strætó og norræna húsið

Tók strætó vestur í háskóla í morgun. Strætó keyrði á sérakgrein og tók fram úr helling af bílum og ég skemmti mér við að gá hvað voru margir í hverjum bíl. Ég sá einn með fjórum fullorðnum, einn með krakka aftur í og tveim fullorðnum frammí. Tvo með krakka og einum fullorðnum og restin var bara einn í hverjum bíl. Fyndnast þótti mér pínulítil kelling í stórum stórum jeppa (fordómar???). Ég hef líka sagt ég trúi ekki á kreppuna fyrr en bílum á stæði háskólans fer að fækka. Samt eru kaupþingsbréfin mín ekkert mjög braggleg og virðast ekki koma til fóðra mig vel í vetur. Ekki svo þau séu svo mikil að vöxtum en samt ... .
Var í langri pásu milli fyrirlestra og í stað þess að lesa og gera verkefni eins og planið var fórum við Kate á bíó í Norræna húsinu og sáum heimildamynd um dót www.storyofstuff.com/ . Mjög skemmtileg ádeila á eyðsluklóaæði okkar. Það er hægt að horfa á hana á netinu. Í ofanálag fórum við svo og hlustuðum á fyrirlestur þar sem svíinn Fred Goldberg hélt því fram að við stefnum inn í nýtt kuldaskeið. Minnir að hann hafi sagt það byrji 2011 eða 2012. Og svo segir hann að loftslagsbreytingarnar séu ekki okkur að kenna :). Við urðum að stinga af áður en fyrirlesturinn var búinn. Það hafa eflaust verið áhugaverðar umræður á eftir.
En allavega - byrja að prjóna lopapeysur og kaupa sér ísbjarnarbyssu!

miðvikudagur, september 10, 2008

Lokaverkefnið og glæpasögur

Ég er búin að taka ákvörðun um að skrifa lokaverkefni um skjalastjórn. Nú er bara að finna viðmælendur sem vilja tjá sig um svoleiðis. Reyndi að bæta við skjalstjórn 2 inn í námið næsta vor en Uglan sagði nei. Ég væri með of mikið! En auðvitað fékk ég undanþágu. Vil enganveginn sleppa Borgarbókasafninu.
Þó ég ætti að vera á fullu að lesa eigindlegar og megindlegar þá þarf ég smá léttmeti líka. Kíkti inn á bóksafnið í Kópavogi um daginn og fann bók eftir Norðmanninn Jo Nesbø "Marekors". Hafði gaman af en maðurinn hefur verulega lasið ímyndarafl. Svo fann ég bók eftir Tony Hillerman sem heitir "Coyote Waits". Hafði einhverntíman lesið bækur sem hafa komið út eftir hann á íslensku og líkað mjög vel. Þegar ég fór og skoðaði Grand Canyon í fyrra keyrði leiðsögumaðurinn um indíánaslóðir og sagði okkur að við værum á söguslóðum Hillermans. Þannig að ég sá þetta allt ljóslifandi fyrir mér. Mæli sterklega með Hillerman

laugardagur, september 06, 2008

Feldenkrais

Var á Feldenkrais-námskeiði niðrí FÍH-húsi í dag. Fer aftur á morgun. Sibyl er yndisleg að nenna að koma til Íslands 3svar á ári og kenna okkur. Kom heim og eldaði mat fyrir næstu viku. Nú verður tekið á því. Nesti og heimaeldaður matur! Ekkert bruðl.

fimmtudagur, september 04, 2008

Netsamband komið á

Svo glöð - komin í símsamband og netsamband og allt. Ofboðslega er maður orðin háður þessu! Var í öðrum tölfræðitímanum í dag og þeim fyrsta eigindlega í gær. Fíla mig ekkert voðalega greinda í augnablikinu en hef smá von um að það gæti lagast. (Eða hvað?)

þriðjudagur, september 02, 2008

skólinn byrjaður

Komin suður og byrjuð í skólanum. Veit ekkert hvernig mér líst á þetta tölfræðidót en kennarinn hélt því fram að þetta væri skemmtilegt og sá sem skrifar aðalbókina er með fyndin dæmi. Hm - spennandi. Og það var yndislegt að hitta stelpurnar. Ferðin suður í gær gekk vel. Það er alveg ótrúlega fallegt að keyra þarna fyrir austan og ég varð að beita mig hörðu til að stoppa ekki á annarri hverri þúfu til að taka myndir.
Er netlaus heima ennþá og sit hér og blogga upp í Odda á nýrri tölvu með fávitalegu Mac lyklaborði - enginn hefur enn fundið at-takkann! urr

föstudagur, ágúst 29, 2008

Verklok

Verklok - skjalalykillinn tilbúinn og samþykktur af héraðsskjalaverði. Fannst rosaerfitt að ýta á takkann og senda skjalið endanlega frá mér. Það má alltaf laga og bæta svolítið um betur. En ég hef lært rosalega mikið á þessari vinnu. Nú er bara að kasta sér undir næsta verkefni sem er að pakka niður og búa sig undir suðurferð. Skólinn byrjar á þriðjudag.

mánudagur, ágúst 25, 2008

Demonens død

Auður lánaði mér bók í gær - bókin er eftir fyrrverandi ráðherra í Noregi Anne Holt. Hún skrifar flotta krimma. Bókin heitir Demonens død og er fantagóð. Bæði sem glæpasaga og þjóðfélagsgagnrýni. Var að kíkja í Gegni - virðist bara hafa verið þýdd ein bók eftir hana á íslensku - en fyrir áhugasama sem ekki lesa skandinavísku haf margar bók Anne Holt verið þýddar yfir á ensku.

... og svo er hér gullkorn frá Jim Rohn:
Perhaps you've heard the story of the little bird. He had his wing over his eye and he was crying. The owl said to the bird, "You are crying." "Yes," said the little bird, and he pulled his wing away from his eye. "Oh, I see," said the owl. "You're crying because the big bird pecked out your eye." And the little bird said, "No, I'm not crying because the big bird pecked out my eye. I'm crying because I let him."

föstudagur, ágúst 22, 2008

Flokkun

Búin í prófinu - lifði það af en mikið dj ... getur maður verið hryllilega gleymin. Ég er að pæla í að fara á minnisnámskeið. Hlutir sem ég var búin að hlýða mér yfir eins og kostir og gallar við Dewey - mundi bara brot! Gnurf.
En samt gríðarglöð og er bara að slugsa og velta vöngum yfir hvað ég eigi að gera núna.

þriðjudagur, ágúst 19, 2008

The Value of a Drink

Fékk þetta frá vinkonu minni í dag - best að leyfa ykkur að njóta líka :)

The Value of a Drink

'Sometimes when I reflect back on all the wine I drink
I feel shame. Then I look into the glass and think
about the workers in the vineyards and all of their hopes
and dreams . If I didn't drink this wine, they might be out
of work and their dreams would be shattered.
Then I say to myself, 'It is better that I drink this wine and let their
dreams come true than be selfish and worry about my liver.'
~ Jack Handy

WARNING: The consumption of alcohol may leave you wondering what the hell
happened to your bra and panties.

~~~ ~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~
'I feel sorry for people who don't drink. When they
wake up in the morning, that's as good as they're
going to feel all day. '
~ Frank Sinatra

WARNING: The consumption of alcohol may create the illusion that you are tougher,
smarter, faster and better looking than most people.

~~~~~ ~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~
'When I read about the evils of drinking, I gave up reading.'
~ Henny Youngman

WARNING: The consumption of alcohol may lead you to think people are laughing WITH you.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~
'24 hours in a day, 24 beers in a case. Coincidence? I think not.'
~ Stephen Wright

WARNING: The consumption of alcohol may cause you to think you can sing.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~
'When we drink, we get drunk. When we get drunk,
we fall asleep. When we fall asleep, we commit no sin.
When we commit no sin, we go to heaven. So, let's all
get drunk and go to heaven!'
~ Brian O'Rourke

WARNING: The consumption of alcohol may cause pregnancy.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~
'Beer is proof that God loves us and wants us to be happy.'
~ Benjamin Franklin

WARNING: The consumption of alcohol&nbs p;is a major factor in dancing like a retard.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~
'Without question, the greatest invention in the
history of mankind is beer. Oh, I grant you that the
wheel was also a fine invention, but the wheel does
not go nearly as well with pizza.'
~ Dave Barry

WARNING: The consumption of alcohol may cause you to tell your friends over and over
again that you love them.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~
To some it's a six-pack, to me it's a Support Group. Salvation in a can!
~ Dave Howell

WARNING: The consumption of alcohol may make you think you can logically converse
with members of the opposite sex without spitting.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~
And saving the best for last, as explained by Cliff Clavin, of Cheers.
One afternoon at Cheers, Cliff Clavin was explaining the Buffalo
Theory to his buddy Norm.
Here's how it went:

'Well ya see, Norm, it's like this... A herd of buffalo can only move as
fast as the slowest buffalo. And when the herd is hunted, it is the
slowest and weakest ones at the back that are killed first This natural
selection is good for the herd as a whole, because the general speed
and health of the whole group keeps improving by the regular killing
of the weakest members. In much the same way, the human brain
can only operate as fast as the slowest brain cells. Excessive intake
of alcohol, as we know, kills brain cells. But naturally, it attacks
the slowest and weakest brain cells first. In this way, regular
consumption of beer eliminates the weaker brain cells, making
the brain a faster and more efficient machine. That's why you
always feel smarter after a few beers.'

WARNING: The consumption of alcohol may make you think you are whispering when you’re not.

mánudagur, ágúst 18, 2008

Kárahnjúkar og helgarheimsókn

Við fengum skemmtilega heimsókn um helgina. Raggi og Adam komu, við elduðum lambalæri þeim til heiðurs á laugardagskvöld og fórum svo í alvöru sunnudagsbíltúr. Fyrst var farið í Hallomsstaðaskóg og dáðst að fallegustu trjánum og blómunum - og bíflugunum (sú mynd kemur seinna. Svo keyrðum við upp á Kárahnjúka og við sögðum þeim að sjálfsögðu allt sem við mundum upp úr Hrafnkelssögu. Við keyrðum yfir stífluna - það var síðasti dagur sumarsins til að gera það og fyrsti dagur haustsins sem flæddi yfir svo við fengum að sjá Kárahnjúkafossinn. Við stoppuðum á stíflunni og tókum myndir - vorum skömmuð fyrir það því þarna voru skilti sem sögðu að þarna væri bannað að vera á gangi - en en - við gerðum bara eins og hinir... Allavega þetta var voða gaman. Sáum ekki Snæfell því það var í felum. Þegar við komum niður aftur fengum við okkur kaffi á Skriðuklaustri. Hlaðborð - eins og fyrsta flokks fermingarveisla. Og eins og þetta væri ekki nógur bíltúr þá skutluðumst við niður á Seyðisfjörð og rúntuðum um bæinn og fjörðinn og skoðuðum hús - og ónýta bíla. Það er eins og sumir bændur séu að reyna að setja á stofn bílaminjasöfn - eða eitthvað.

laugardagur, ágúst 16, 2008

Loksins komin út úr púpunni


Ormsteitið byrjað í gær með bravúr.
Myndir má sjá hér.

fimmtudagur, ágúst 14, 2008

Karneval og fiðrildi

Ormsteiti hefst á morgun með feikilegu karnevali. Ég fæ að vera fiðrildi - fékk aðeins að prufa vængina í kvöld. Æðislegir - vona bara að það verði logn ... :-)
Var aðeins að hjálpa til að skreyta búninga og föndra smá. Það er götuleikhúshópur frá Írlandi sem er hér að hjálpa til að gera þetta stórkostlegt - og búningarnir þeirra eru sko alveg stórkostlegir. Bjálfaðist til að gleyma myndavélinni svo ég get ekki skeytt færsluna með myndum af æfingunni í kvöld. En - rosalega hlakka ég til morgundagsins. --- já ef einhver á leið austur þá hefst skrúðgangan klukkan 20 ...

þriðjudagur, ágúst 12, 2008

Rósirnar aftur






Tók myndavélina með mér í morgun - mynd gærdagsins var bara tekin á símann :)

sunnudagur, ágúst 10, 2008

bíltúr með vistir

Fór yfir á Seyðisfjörð í dag með vistir fyrir 4 göngugarpa sem höfðu tölt á milli Borgarfjarðar eystra og Seyðisfjarðar á nokkrum dögum. Þetta er í fyrsta sinn sem ég keyri þessa leið - meina - ég sjálf við stýrið - og mér fannst brekkurnar og beygjurnar skuggalegar. Sem betur fer var lítil umferð svo ég gat alveg ráðið hraðanum og glápt svolítið lika. Það er óskaplega fallegt víða þarna. Strákarnir voru ekki komnir niður svo ég fór í kaffi til æskuvinkonu minnar sem tók mér með kostum og kynjum. Held hún eigi heima í fallegsta húsinu á Seyðisfirði og garðurinn hennar er líka æðislegur.
Búin að fá grænt ljós á skjalalykillinn - reyndar beðið um smávægilegar breytingar sem verður lagað á morgun. Allt að smella saman.
Er að að lesa Dewey og rembast við að reyna að muna skilgreiningar en hef á tilfinningunni að ég sé með teflonheila. Mjög bagalegt.

þriðjudagur, ágúst 05, 2008

síðasta freistingin

Datt yfir bok eftir Val McDermid á bókasafninu fyrir helgi og renndi í gegnum hana. Bókin heitir The Last Temptation og fjallar m.a. um breska kvenlöggu sem er send til Þýskalands til að koma upp um pólskan flottan bófa. Spennandi bók og skemmtileg með fullt af aukaplottum m.a. raðmorðinga en ég trúi ekki á hvernig hún, löggan, klúðraði dulargervinu. Bara passar enganveginn. En auðvitað varð að komast upp um hana - annars hefði þetta ekki orðið nein alvöru saga ...

Heilræði dagsins

"Treat your body like a temple, not a woodshed. The mind and body work together. Your body needs to be a good support system for the mind and spirit. If you take good care of it, your body can take you wherever you want to go, with the power and strength and energy and vitality you will need to get there." Jim Rohn

Hann segir líka á miklu einfaldari hátt: "Take good care of your body. It's the only place you have to live."

sunnudagur, ágúst 03, 2008

Hrafnkelsdalur

Fór í frábæra ferð í gær á söguslóðir Hrafnkelssögu. Páll Pálsson frá Aðalbóli var leiðsögumaður og Sveinn sjálfur keyrði bláa Tannarútu. Fórum inn Fljótsdal og þar var lesið upp úr viðeigandi köflum úr sögunni. Fórum áleiðis upp á Kárahnjúkum og fórum þar yfir á "troðning" í átt að Hrafnkelsdal. Frábært veður og það er búið að bera áburð á þarna uppi svo gróðurinn hefur aðeins lifnað við. Páll sagði að þetta yki á vanda við smalamennsku því sauðkindin fylgdi eftir gróðrinum. En þetta var svolítið skrítið því þetta var rautt en ekki grænt. Punturinn sem hefur tekið við sér er rauður! Þegar við nálguðumst Hrafnkelsdal hoppuðum við út úr rútunni og gengum eftir stikum í átt að Aðalbóli. Fórum sömu leið og Sámur og Þjóstasynir fóru að Hrafnkeli. Fín leið og sást ekki niður í dalinn ... og sást ekki til okkar úr dalnum. Svo þurfum við að brölta niður velbratta brekku niður að Aðalbóli. Vinstri löppin á mér var ósátt við ferðalagið en ég komst nú samt. Þegar niður var komið fengum við að sjá frábært leikrit byggt á Hrafnkelssögu. Leikararnir sögðu á eftir að þeir höfðu haft þennan draum um að sýna þetta á söguslóðum og voru líka alsælir held ég. Eftir eftir þetta var okkur boðið upp á grillað hross með meðlæti og á leiðinni heim stoppuðum við þar sem verið var að setja upp skilti við upphaf gönguleiðarinnar að Aðalbóli - þ.e við Brú. Páll hélt áfram að segja okkur skemmilegar sögur á leiðinni niður Jökuldalinn og við komum heim klukkan 9 eftir 8 tíma ferðalag. Frábær dagur.
Snæfell fegurst fjalla
Aðalból

Dáðst að skiltinu
Brú á Jökuldal

miðvikudagur, júlí 30, 2008

veðurblogg

Enn og aftur búið að pakka Egilsstöðum inn í bómull. Ég sá þokuna læðast inn Löginn fyrir svona klukkutíma og núna hefur hún pakkað blokkinni minni inn. Svona var þetta líka í morgun. Það skrítna var að það var þoka hér en sól og blankalogn á Reyðarfirði. Þetta mun vera sjaldgæft. En það var líka sól og blíða hér uppfrá þegar ég kom heim um fimmleitið. Kíkti aðeins við í Safnahúsinu á leiðinni heim. Þar var hellingur af fólki. Þorði ekki upp í bókasafn. Má ekki láta freistast af skáldsögum. Núna er það bara fagbækur á borðinu.
Búin að plata einn af köllunum niður frá að taka mig með á skak. Það verður spennandi að vita hvernig það gengur.

mánudagur, júlí 28, 2008

grobb

Verð að grobba mig svolítið - ég fór með bílinn minn út á þvottaplan og ÞVOÐI hann. Ekki vanþörf á því reyndar. Hann var rykugur og með slatta af dauðum flugum eftir Breiðdalstúrinn (öhöm). - Ég vissi það en í dag hafði bæst við aukaástæða. Hafði greinilega flogið krummi með berjaskitu yfir hann! Svo nú veit maður að berin eru orðin æt. Eftir bílaþvottinn fór ég smáhring upp í Selskógi. Dásamlegt veður en sá ekki berjaörðu á þeim hring.

sunnudagur, júlí 27, 2008

Blíða og Dewey

Brakandi blíða hér á Egilsstöðum. En ég vappaði bara út í búð. Sleit mig frá DDC og djúpum pælingum um hvort ég ætti að flokka franskar smásögur á þýsku sem þýskar eða franskar og hvort ég ætti að gera eitthvað meira. Meina það - ég kunni þetta upp á 9,8 fyrir áramót!
Hellingur af túristum hér bæði innlendum og útlendum - hitti hálfberan hlaupara á stígnum - þ.e. bara í hlaupaskóm og stuttbuxum :). Mætti þrem konum við Bónus - hvar af ein stundi þungan út af hitanum. Ég meina það - það er ekki SVO hlýtt að maður þurfi að stynja.
Vona bara að grænmetið mitt og salatið úti á svölum fari að braggast, það er mun aumingjalegra en í fyrra á sama tíma.

föstudagur, júlí 25, 2008

Fann nýjan höfund

Kippti þessari með mér á bókasafninu síðast - Kate Thompson: Going Down. Ágætilega skemmtileg bók og góð afþreying. Skrifar m.a. um köfun og Jamaíka. Svo er auðvitað slatti af ást, kynlífi og misskilningi svona til að krydda.

miðvikudagur, júlí 23, 2008

Harmur á fjöllum


Þessir verða graslömb það sem eftir lifir sumars.

laugardagur, júlí 19, 2008

dýrðardagur

Nánast fullkomin Egilsstaðadagur í dag. Dásamlegt veður. Skýjafarið dásamlegt. Hér voru tvær smáflugvélar og léku sér eftir kvöldmat. Tveir spíttbatar geystust upp Löginn og tveir mun hægari á eftir. Annar stoppaði reyndar og varð að snúa aftur. Ég fór í hjólatúr síðdegis og hjólaði niður með ánni og tók fullt af blómamyndum. Gáði að bíl sem við sáum í morgun þegar við fórum smá rúnt um bæinn. Sá hafði ekki náð beygju og oltið niður bratta brekku. Hef ekki séð neitt um það í fréttum í dag. Á morgun förum við í útilegu með Birgi og Ollu og smásneplunum. Þau voru á ættarmóti niður á Borgarfirði. Kannski má líka plata Björninn á tónleika í Skóginum. Það er reyndar engin Eivör eins og í fyrra en Rúni Júl og Bjartmar geta verið flottir.



föstudagur, júlí 18, 2008

Kalt er annars blóð

Fór á bókasafnið í gær og skilaði stöðlunum sem ég hafði fengið lánaða í millisafnaláni. Freistaðist til að taka tvær skáldsögur. Önnur þeirra er Kalt er annars blóð eftir Þórunni Erlu-Valdimarsdóttur. Hafði gaman af henni. Hún notar fyrirmyndir úr Íslendingasögunum og setur í Reykjavík samtímans. Það eru náttúrlega morð og blóð og lausn á gátunni í lokinn. En mér finnst alltaf svolítill galli þegar mér finnst eins og höfundi þyki ekkert vænt um söguhetjurnar. En - ég sleppti bókinni ekki fyrr en hún var búin - og leit hvorki á flokkun né skjalastjórn í gær.

Fengum kynningu á OneSystems í vinnunni í dag. Líst vel á kerfið - vona að ég fái að vita meira um það fljótlega.

miðvikudagur, júlí 16, 2008

hvaða borg?

Dunda mér við að finna út um hvað ég eigi að skrifa um vinnureglur í kringum málaskrá og bréfalykla og rafrænt skjalakerfi - þá er voða freistandi að kíkja aðeins á aðra hluti á vefnum. Datt t.d. um þetta.



You Are Austin



A little bit country, a little bit rock and roll.

You're totally weird and very proud of it.

Artistic and freaky, you still seem to fit in... in your own strange way.



Famous Austin residents: Lance Armstrong, Sandra Bullock, Andy Roddick


Held kannski það hafi eitthvað misfarist í könnuninni.

þriðjudagur, júlí 15, 2008

moldrok og flokkun

Það hvín og blæs - skýin eru ótrúlega flott - en verst að vita að þau eru full af mold. Í vinnunni í dag var talað um að rigningin niðri á Fjörðum í gær hefði verið brún og bílarnir vel moldugir eftir steypibaðið. Svalirnar mínar eru líka fullar af sandi. Var að dunda mér við að gera flokkunarverkefni í kvöld - gekk vel þó ég hafi klikkað smá á kanadískum antikhúsgögnum. Tók mér smápásu og las blogg um ævintýri Laugavegshlaupara. Hrikalega er þetta duglegt fólk.
Var á spennandi fundi um skjalamál í dag og var líka beðin um að gæda í dagsferð á morgun. En þar eru takmörkin - treysti mér ekki til að gæda á ensku. Sumsé dúllurnar mínar - það er sko nóg að gera fyrir duglegt fólk hér á Austurlandi.

laugardagur, júlí 12, 2008

Sjónvarpsgláp og flokkun

Komst í tæri við sjónvarp í gær og glápti bæði á The Body og á Men in Black. Hafði hvoruga myndina séð áður en lagði þetta mig því mörgum þótti myndin in Black alveg æðisleg og ég hafði gaman af henni. En - fyrir mörgum árum rakst ég á bókagagnrýni í norsku blaði um bókina The Body eftir Richard Ben Sapir og reyndi mikið til að ná í hana þá. Fékk hana aldrei en núna hef ég allavega séð bíómyndina og fannst efnið áhugavert. Gaman væri að vita af hverju bókin var svona illfáanleg þó hún þætti nógu merkileg til að gerð væri bíómynd um hana.
Sit hér heima og geri Flokkunarverkefni - fer í sumarpróf 22. ágúst. Ég held svei mér þá að mér þyki þetta jafn flókið og í haust - búin að gleyma nærri öllu. En ágætt að brýna heilann svolítið.

miðvikudagur, júlí 09, 2008

hlaupanámskeið

Mig klæjar alltaf dálítið í hlaupagenin. Sakna þess að geta ekki farið út að skokka. Fór þess vegna á hlaupanámskeið hjá Smára Jósafats upp á íþróttavelli. Ég gat náttúrlega ekki hlaupið spönn frá r... en lærði samt nokkur skemmtileg trix. Hann heldur því fram að maður geti hlaupið á meiðsla með þessari aðferð. Ætla að prufa. Hann var líka með taktmæli til að stilla af hlaupið. Það er líka sniðugt til að nota á hjóli. Ég skildi nefnilega ekki hvernig ég ætti stíga pedalana alltaf á sama hraða eins og Bryndís ofurhlaupari og járnkerling reyndi að kenna mér. Nú ætti það að vera auðvelt - ef ég er með taktinn í eyrunum. :)

þriðjudagur, júlí 08, 2008

Vatnslaust

Vatnslaust í 7. himni í marga klukkutíma - og þegar það loksins kom og átti að demba sér í kvöldbaðið þá var vatnið brúnt! yach! Vona bara það verði hægt að fara í sturtu í fyrramálið.

sunnudagur, júlí 06, 2008

Fardagafoss


Löbbuðum upp að Fardagafossi í dag í dásamlegu veðri. Vorum rosaheppin. Vorum alein á leiðinni upp og á bak við fossinn en mættum fólki þegar við vorum á leiðinni upp frá fossinum og svo var strolla af fólki á leið upp. Þetta var frábært - svolítið smeik efst uppi - ég er jú alveg hryllilega lofthrædd en það eru keðjur þar sem erfiðast er svo þetta var leikur einn. Bjössi hljóp þetta auðvitað á sandölunum og prílaði fremst á allar klettasnasir - og leit ekki við keðjunni. Það sést ekki - en þarna sit ég í miðjum regnboganum - hann var hringinn í kringum mig. Sá samt ekki gullpottinn. Skrifuðum í gestabókina sem er fyrir framan hellinn - en kassinn sem gamla gestabókin var í inni í hellinum er brotin og allt blautt í honum. Okkur var sagt af staðkunnugum að það hefði á árum áður alltaf verið hreinsað grjót úr hellinum en það hefði ekki verið gert síðustu ár. Og það hafði víst hrunið mikið í fyrravetur. Fórum svo og kíktum á lóð svolítið fyrir utan Egilsstaði. Gasalega fín - allavega í svona yndislegu veðri.

laugardagur, júlí 05, 2008

torfæra

torfærusúkkan ógurlega Frábærlega skemmtileg torfæra hér á Egilsstöðum í dag. Þurfti ekki að hafa áhyggjur af veðrinu. Það var rjómablíða - þó það færi að blása svolítið seinnipartinn - Við erum orðin svolítið Majorkalegri á litinn en við vorum í gær.
Brautirnar voru erfiðar - fengum 2-3 glæsiveltur og held að það hafi bara verið einn sem kláraði eina brautina. Var skotnust í Súkkunni sem var að halda upp á afmæli eigandans. Súkkan var svosem ekkert kraftmikil og komst ekki langt en stóð sig samt ágætlega.
Við höfðum hugsað okkur að fara í útilegu eftir torfæruna - í þessari líka blíðu. Keyrðum niður Hróarstunguna en lentu þar í þoku sem elti okkur upp á Egilsstaði. Svo grillmaturinn var steiktur á pönnu og það verður sofið heima í nótt.

föstudagur, júlí 04, 2008

þoka

Húsasmiðjan er horfin - skyggni vægast sagt takmarkað. Það hefur verið mikið um þoku síðustu daga og veröldin breytist ótrúlega við það. Í morgun hurfu til dæmis húsin á Egilsstaðatorfunni en hattaði fyrir hæð og klettum og trjánum. Var svolítið eins og málverk eftir finnskan meistara. Vona bara að það verði ekki svona á torfærunni á morgun - panta svona eins og það var þegar ég kom heim úr vinnunni í gær. Brakandi blíða og verulega hlýtt og yndislegt - alvöru Egilsstaðaveður.

mánudagur, júní 30, 2008

RÚV-uppsagnir

Hnuggin yfir því að haldið er áfram að reyna að murka lífið úr Ríkisútvarpinu - hægt mjög hægt. Nú eru lagðar niður 20 stöður og flestar munu tengjast Fréttastofu Útvarps sem var allavega lengi talinn besti fréttamiðill landsins. Spurning hve lengi FÚ tekst að halda þeim status. Átta manns sagt upp - mig minnir að við ohf væðinguna hafi verið talað um að fólk þyrfti ekki að óttast að missa vinnuna. Það góða í stöðunni er það að RÚVarar fá yfirleitt auðveldlega vinnu en það slæma að RÚVinu blæðir út.

föstudagur, júní 27, 2008

Fyrsta alvöru fjallganga sumarsins

Séð út Reyðarfjörð, Skrúður sést í fjarska Á fætur í Fjarðabyggð heitir skemmtilegt verkefni sem er gangi núna. Það eru 1 til 2 fjallgöngur á dag og svo kvöldvökur á kvöldin. Ég fór á Svartfjall í dag með mínum heittelskaða og u.þ.b. 26 öðrum. Hafði gleymt góðu gönguskónum fyrir sunnan en átti eina sem ég hef notað sem vetrarskó. Og þeir dugðu svosem alveg í tveggja skóa göngu. Svartfjall er milli Eskifjarðar og Norðfjarðar 1021 m hátt en það var svosem ekkert að marka því við lögðum bílnum á gamla Oddsskarðsveginum og löbbuðum þaðan - ca. 400 metra hækkun. Fengum ljómandi gott veður á leiðinni upp og frábært útsýni á toppnum í byrjun. En þar sem við sátum í spekt og borðuðum nesti og forkólfarnir grófu eftir gestabókinni í fönninni þá brast á með hríð! Grafið eftir gestabókinni Þegar gestabókin var fundin á rúmlega meters dýpi (hún var staðsett með gps-hniti) og búið að kvitta í hana æddum við niður í sólina. Ég fann mér laglegar og langar fannir og renndi mér á rassinum niður - og var ekki sú eina sem notaði þessa aðferð. Buxurnar sem ég keypti í gömlu Skátabúðinni fyrir margt löngu dugðu vel og það sá ekki á þeim eftir þessa meðferð. Þegar niður var komið var tekið á móti hópunum og þeir sem höfðu náð að ganga á tindana fimm undanfarna daga voru verðlaunaðir.
Rúntuðum smá á Eskifirði, keyptum harðfisk hjá að sögn besta harðfiskverkenda í heimi og komum við á nýja kaffihúsinu. Keyptum súkkulaðiköku - heita nýbakaða, algjört lostæti, og kaffi sem mér fannst mega vera sterkara. En bara huggulegt þarna og boðið upp marga rétti og kaffi og aðra drykki í ýmsum útfærslum. Enduðum svo í kvöldmat hjá Helga og Helgu og borðuðum nýveiddan þorsk sem húsbóndinn hefði sjálfur dregið að landi. Haldið að það sé lúxus að búa á Austfjörðum?

mánudagur, júní 23, 2008

gluggaveður

Skýin á Héraði 22.6.2008
Skítkalt á Austurlandi en alveg ótrúlega dásamlega fallegt gluggaveður. Já og líka í lagi þar sem sólin skín og í skjóli :-). Ég er illa kvefuð ennþá og bóndinn kominn í rúmið með hita, hausverk og beinverki. Sólin hæst á lofti og allir ættu að vera upp á sitt besta en en svona er það nú bara. Ef maður sleppur við vetrarpestir fær maður bara sumarpestir. Í austurátt nokkrum dögum áður

laugardagur, júní 21, 2008

landfræði

Komin heim aftur heim í 7. himinn eftir vellukkaða höfuðborgarferð. Var reyndar lasin en tókst að gera það sem ég fór til að gera og lærði helling. Fékk frábært flug báðar leiðir og rifjaði upp landafræðikunnáttuna.
Meiri landsfræðikunnátta - þetta fann ég á lokuð bloggi nöfnu minnar - verð að deila því með öðrum - gljúfra- eða glæfraferð. Var ekki einhver Indiana Jones mynd tekin þarna? Ég færi ekki þarna þó það ætti að drepa mig. Mér þótti nóg að fara á Prekestolen í Noregi.<

mánudagur, júní 16, 2008

kvef

Fullkomlega að bugast úr kvefi. Hnerra eins og herforingi en er hætt að vera illt í hálsinum eins og þjáði mig í gær. Vona þar með að þetta verði að mestu rokið úr mér á morgun þegar ég fer suður. Vill hvorki smita vinkonur mínar sem ég vona að ég hitti þessa daga né vera mjög sljó og utan við á fundum sem ég þarf á fara á á miðvikudag og fimmtudag. Er hægt að fá 3 daga kvef eða tekur það alltaf viku?
Hef verið að dunda mér við að búa til skjalalykil sem ég held sé of flókinn og fylgjast með ísbjarnarfréttum. Undir kvöld hafði enginn fattað þetta í útlöndum nema Danirnir. Þetta er kannski ekki frétt nema hann verði drepinn eða e-a svakalegt gerist.

sunnudagur, júní 15, 2008

hahaha
"Petty Officer First Class, Data Processing, sir," she said formally. Jane Edmunds wore spectacles and stood stiffly. She reminded Norman of a librarian.
Crichton, Michael: Sphere (s. 58)

kvef

Urr - slapp við allar meiriháttar pestir og kvef í vetur (sem betur fer) en er núna með kverkaskít og hnerra eins og ég veit ekki hvað. Fann fyrir þessu í gær en er næstum alvörulasin núna. Fór ekkert út í góða veðrið í gær. Sat bara og lék mér í tölvunni - tók smá til og hlustaði á Sue Grafton - T is for Trespass á mp3 spilarnum. Það er besta leiðin til að fá mig til húsmæðrast smá. Þá get ég dundað mér alveg helling og pússað eins og ég veit ekki hvað.

laugardagur, júní 14, 2008

Svoo fallegt

Laugardagsmorgun. Sólin skín, ekki skýhnoðri á himni, fljótið er spegilslétt og veröldin er dásamleg. Keyrði niður á Reyðarfjörð í gær í álíka yndislegu veðri og sá hreindýraflokk á beit alveg við veginn. Þetta er eitt af undrum Austurlands. Já - Reyðarfjörður alveg unaðsfagur um þessar mundir. Gríðarlega státnir og fallegir túlipanar um allan bæ og torgið verulega fallegt. Af hverju er maður aldrei með myndavél!
Ég heimsæki höfuðborgina í vikunni. Kem síðdegis 17. júní og fer aftur á föstudag, þarf að fara á fundi. Fínt að skreppa suður. Gallinn er sá að bróðir minn ástkær verður hér á ferðinni á fimmudaginn og ég verð ekki hér að taka á móti honum.

fimmtudagur, júní 12, 2008

bóklestur

Fékk lánaða bók eftir Kennedy um skjalastjórn sem ég dundaði mér við að lesa um helgina - ekkert mjög skemmtileg en gagnleg. Til að slaka spíttist ég í gegnum Blátt tungl eftir Árna Þórarinsson. Furðulegt - en ég hafði ekki lesið hana áður. Hún kom reyndar út árið sem ég var í Danmörku, það er trúlega ástæðan fyrir því að ég missti af henni. Frábært að finna nýja gamla glæpareyfara. Svo hef ég verið að lesa Neither Here Nor There eftir Bill Bryson. Fantaskemmtileg frásögn af upprifjunarferð hans um Evrópu.

föstudagur, júní 06, 2008

allar einkunnir komnar

Fékk síðustu einkunnina í dag - fékk 9 í lokaverkefninu í Lyklun sem varð til að ég endaði með 8,5. Ég er alveg ofboðslega ánægð - en ég er þarf greinilega að taka mig á í því hvernig ég vísa í heimildir. Það ætti að vera auðvelt að bæta en ég klúðraði því samt. Kate náði í verkefnið mitt skannaði og sendi mér - Takk - takk Kate súpersnillingur og dúx :).

þriðjudagur, júní 03, 2008

grobbin

Var hryllilega þreytt - vaknaði klukkan 5 í morgun af tómu stressi held ég. Tókst ekki að leggja mig þegar ég kom heim. En núna rétt í þessu þegar ég var að kíkja á síðuna mína hjá HÍ fyrir svefninn, sá ég að það voru komnar einkunnir í Upplýsingaleiðum og Vefstjórn - 9 í því fyrra og 8 í því síðara. Fékk algjört adrenalínkikk. Rosalega ánægð - sérstaklega með þá fyrri. :-). Hugsa samt með samúð til K... sem þarf að bíða eftir einkunninni því einhver týndi síðasta vefverkefninu hennar. Hvernig er svoleiðis hægt?

mánudagur, júní 02, 2008

Nýja vinnan

Vaknaði óvart klukkan 5.30 í morgun - vekjaraklukkan var stillt á 6. Tók rútuna klukkan 7 í næsta sveitarfélag og byrjaði í nýju vinnunni fyrir allar aldir. Líst vel á vinnufélagana en verkefnið verður ærið.

sunnudagur, júní 01, 2008

fann nýjan glæpahöfund

Datt yfir nýjan höfund á bóksafninu, hún heitir Karin Slaughter. Mæli með henni - en fann bara tvær bækur á safninu. Hún hefur skrifað miklu fleiri og sú nýjasta er til í Samkaup. Tókst að halda vísakortinu kjurru í veskinu - en það var erfitt.

laugardagur, maí 31, 2008

Hafraklíðsmúffur

2 ¼ bolli hafraklíð (ég nota líka haframjöl)
1 msk lyftiduft
¼ bolli sykur eða hlynsíróp
2 msk saxaðar möndlur
handfylli af rúsínum eða bláberjum
¼ bolli kókósmjöl (má sleppa)
1 ¼ bolli undanrenna
hvítur úr 2 eggjum eða einu stóru (ég nota tvö heil egg)
2 stórir vel þroskaðir bananar

Þurrefnum blandað saman
Mauka önnur efni í matvinnsluvél og blanda saman við þurrefnin
Setja í muffinsform með plássi til að hefast
Ef bláber eru notuð þá strá þeim yfir
Bakað við 200ºC í um það bil 15 mínútur.
Kæla - setja í poka og frysta.
Í uppskrift stendur - hita í örbylgjuofni á hæsta í 30 sek. - ég læt þær bara þiðna á eldhúsborðinu.
Uppskrift út bókinni Einfaldaðu líf þitt : 100 leiðir til að draga úr streitu og njóta þess sem raunverulega skiptir máli eftir Elaine St. James. Búin að baka svona tvisvar og þær klikka ekki.

rigning

Hélt ég yrði fúl og svekkt þegar sólin færi - en - en - þessi rigning er voða pen, það er logn og allt hefur snargrænkað á þessum 2 rigningardögum.
Rukolan mín er voða roggin og ertublómin sem Bjössi pantaði eru orðin 10 sm og komin úr vermikössunum.
Það kom maður í gær með mælitæki og teiknaði punkta fyrir húsið á lóðinni. Það verður byrjað að slá upp í vikunni. Allt að gerast.

fimmtudagur, maí 29, 2008

skjálftinn

Ægilega er ég fegin að vera á Austurlandi núna. Mér er illa við jarðskjálfta. Reynar missti ég líka af 17. júlí skjálftanum en þótti seinni skjálfinn þá óþægilegur. Vona bara að allt sé í lagi hjá mínu fólki á Selfossi. En gleðifréttir dagsins er að ég eigaðist nýja fína frænku í dag. Gréta fékk enn eitt barnabarnið:)

mánudagur, maí 26, 2008

Meira blíðviðri

Þar sem við Sjöfn létum fara vel um okkur í fína nýja rólusófanum hennar veltum við fyrir okkur hvernig í ósköpunum fólki tækist að vinna handtak þar sem er 30 stiga hiti eða meira. Við vorum firnalatar og bara 20 hér. Annars hjólaði ég yfir til hennar í Fellabæinn og þótti það bara nokkuð gott. Byrja að vinna á morgun og undirbúa mig undir skjalaverkefni sumarsins - megaspennadi - túristar blásnir af og bara skjöl framundan ...

sunnudagur, maí 25, 2008

Egilsstaðablíðviðri



Meiriháttar dásamlegt veður hér eystra. Við fórum í labbitúr - reyndar tvo - fyrst fórum við í smá skógargöngu og svo ákváðum við að labba upp á Fardagafossi en það er eitt af því sem helsti Egilsstaðasérfræðingur minn Inga Rósa segir að maður verði að gera reglulega. Og það var alveg yndislegur göngutúr. Ekki sála á ferðinni þarna bara fótspor í stígnum sem var orðin dálítið illa farinn.

dokar og áldýr

Keyrðum niðrá Reyðarfjörð í gær. Rúntuðum smá um og ég sá áldýrin - svo nú er ég bæði búin að sjá hreindýr og áldýr. Nei í alvöru mér þykir mjög sérstakt að sjá hreindýr tvisvar í sömu vikunni svona rétt hjá mér. Ég hef einhverntíman áður séð þau eins og punkta í fjarlægð - en aldrei svona í návígi. Við hittum vinnufélaga mannsins og díluðum við hann og keyptum af honum doka ... Það eru svona spítur sem maður notar til að byggja hús. Fengum lánaða kerru hlóðum á hana um 50 dokum og ókum með feng okkar heim. Losuðum svo af kerrunni þegar heim var komið. Ég var þreytt eftir átökin en agalega grobbin - er ekki með neinar harðsperrur í dag.
Las fyrir helgi bókina um Margréti Frímannsdóttur, Stelpa frá Stokkseyri. Skemmtileg bók, gott að lesa hana, fín samtímasaga og gaman að sjá hvernig kaupin gerast á eyrinni í pólitíkinni. Það eina sem fór í taugarnar á mér - fyndinn íslenskufasismi -er að Þórunn Hrefna sem skráir - og gerir það vel - skrifar ráðuneytin með stórum staf. Þa særir mína fornu textavarpssál.

þriðjudagur, maí 20, 2008

í 7. himni

Á sunnudagssíðdegi fyllti ég bílinn minn af því nauðsynlegasta. Keyrði austur fyrir Selfoss og tók hús á Kötu vinkonu minni. Sat þar um kvöldið í góðu yfirlæti og svaf alveg dásamlega í friðsældinni í sumarbústaðnum hennar. Lagði svo af stað í ferðina löngu klukkan 7.30. Stoppaði klukkan 9 í Vík í Mýrdal, stoppaði aðeins á Kirkjubæjarklaustri, stoppaði aðeins lengur í Nesjum í hádeginu og tók bensín. Þar var ég líka á síðustu dropunum. Sá svo einhver dýr - ég held í Hvalnesskriðum, og fór að pæla - eru þetta kindur á veginum - nei þau voru of stór. En þegar nær dró sá ég að þetta voru fimm hreindýr! Alveg við veginn. Náði þremur á símamyndavélina. Sá svo hóp af velhyrndum dýrum seinna en þau voru langt frá veginum. Kom heim á Egilsstaði fyrir klukkan 16 og var gríðarlega ánægð með ferðina. Fínt að keyra - lítil umferð og allt bara flott. Fékk svo verðlaun frá bóndanum - Olympus upptökutæki - alveg eins og ég óskaði mér. :-). Verður ekkert að vanbúnaði í eigindlegum í haust.

fimmtudagur, maí 15, 2008

point of no return

Búin að setja síðasta punkt - prenta og allt - vantar tvær kommur en s...
Á leið niðrí HÍ núna með tvö verkefni. :):):)

endaspretturinn

Vantar bara örfá lokaorð á vefskýrsluna mína. Ég tók og greindi mitt gamla uppáhaldsfélag Útivist. Var bara nokkuð ánægð með vefinn þeirra en benti samt gáfulega (hm) á ýmislegt sem betur mætti fara. Nú ætla ég að sofa eins og grjót í nótt. Skrifa lokaorð í fyrramálið, búa til forsíðu og annað skemmtilegt og skila henni um hádegi. Svo ætla ég bara dingla mér það sem eftir lifir dags. Sama þó rykmaurarnir seu orðnir óðir hér heima. Þeir mega sko skemmta sér smástund í viðbót.

þriðjudagur, maí 13, 2008

Ein ég sit og sauma ... eða eitthvað

Búin að sitja hér heima og reyna að vinna við vefverkefnið - finn alltaf betur og betur hvað ég er mikil félagsvera og á erfitt með að vera ein heima í lengri tíma. Hélt ég væri á góðri leið með að borða upp allt sem væri til í íbúðinni en samkvæmt þessari könnun ætti ég að geta lifað lengi án þess að fara út. Ég held þeir hljóti að gera ráð fyrir að það sé mikið góðu vatni aðgengilegu. Það er kannski andstyggilegt að gera svona test þegar maður veit af fullt af fólki innilokuðu í rústum í Kína. Jæja en samt - hér kemur prófið. How Long Could You Survive Trapped In Your Own Home?
Created by OnePlusYou - Free Online Dating

Eitt verkefni frá

Píndi besta prófarkarlesarann til að lesa yfir upplýsingaleiðaverkefnið. Ég held ég hafi aldrei fengið eins margar athugasemdir ... Sendi það af stað 3 mínútur fyrir miðnætti. Hrikalega happy, fyndið þó mér þyki verkefnið mesta moð þá er bara svo gott að vera laus við það. Vona bara að ég hafi verið að svara því sem ég átti að svara. Í fyrramálið stekk ég á næsta verkefni. Hef 2 daga í það.

sunnudagur, maí 11, 2008

gaaAAARRG


Fann hérna svona afskaplega huggulega mynd sem sýnir vel hvernig ég hef það þessa dagana. Myndin er því miður þrælstolin og ég hef ekki hugmynd um hvort það sé höfundaréttur á henni. Veit að samnemendur mínir eru álíka frústreraðir - nema Ólöf -sem skilaði verkefninu sinu á föstudaginn. Svo flink :)

föstudagur, maí 09, 2008

kvöldtuð

Sit hér hundpirruð yfir Google Scolar og reyni að gera skýrslu 2 í rafrænu gagnasöfnunum. Held ég gefist upp í kvöld og helli mér í þetta í fyrramálið. Ég verð að klára þetta verkefni um helgina svo ég hafi einhvern tíma fyrir vefverkefnið. Þar fíla ég mig sko út á túni.
Fékk einkunn fyrir síðasta verkefni þeim rafrænu í dag - rosalega ánægð - við fengum 9. :-). Það er gott að vinna með góðu fólki.
Lagði lokahönd á lyklunarverkefnið í dag. Heftaði og setti í plast. Ætla ekki að líta á það meir. ... held ég.
Svo er ég, Kópavogsbúinn, alveg rosalega stolt af mínu fólki i Útsvari í kvöld. Snilld að vinna Reykvíkinga með einu stigi.

miðvikudagur, maí 07, 2008

lyklunin búin - kannski

Kláraði lyklunina í kvöld - held ég. Búin að setja á heimildarlista, efnisyfirlit og búa til forsíðu. Nú þarf ég bara að ná mér í grimman prófarkarlesara ...
Svo er það bara að stökkva á næsta verkefni í fyrramálið. Fersk og útsofin. Það er gaman á vorin hjá námsfólki - ekki satt?

þriðjudagur, maí 06, 2008

mannætur og henda mat

Fékk áfall þegar mér varð á að hlusta á Kastljósið og heyrði hvað við hendum rosalega miklu - mat og allavegana dóti. Veit upp á mig skömmina. Ég henti nefnlega í dag. Björninn er hrifin af smurosti og við keyptum svoleiðis þegar hann kom síðast. En en þegar ég ætlað að smurja brauðið með þessu í dag þá fattaði ég að það er MJÖG langt síðan hann var á ferðinni. En rakst á þetta á bloggi áðan og varð að athuga hvað ég gæti fóðrað marga ... How many cannibals could your body feed?
Created by OnePlusYou

mánudagur, maí 05, 2008

verkefni og walker

Tók smá pásu frá lykluninni í dag og kíkti á verkefnið í Upplýsingaleiðum. Byrjaði á fyrstu skýrslunni sem átti að vera 1000 orð og mér fannst ég vera búin að gera þokkalega skýrslu eftir 500 orð! Hm - vantar greinilega eitthvað. Svo fór ég á fyrirlestur um jarðfræðinginn Walker í Öskju, það er verið undirbúa minjasafn um hann á Breiðdalsvík, það á að opna í ágúst. Hjörleifur Guttormsson flutti fínan fyrirlestur og sýndi myndir. Er hrædd um að ég verði miklu lengur á leiðnni austur en ég áætlaði því ég kem til með að þurfa að stoppa og skoða svona jarðfræðifyrirbæri sem hann benti á.

fimmtudagur, maí 01, 2008

Til hamingju með daginn

Fyrsti maí og ég fór í staðinn fyrir að fara í kröfugöngu í fyrsta hjólatúr vorsins. Þurfti að sinna erindi niður í Ármúla og ákvað að það væri fínt að hjóla. Pumpaði í dekkin, smurði keðjuna, fann fram hjálminn og hjólahanskana og æddi af stað. Dásamlegt veður og sáralítil umferð. Kom svo tilbaka eftir Fossvogdalnum. Hann var fullur af hlaupurum og hjólafólki og fólki að viðra sig og hundana sína. Sá hóp af ungum bleikklæddum stelpum sem voru í lautarferð í dalnum - með bleika sólhlíf. Sá líka fyrstu lóur vorsins - var búin að heyra í þeim en ekki sjá fyrr. Dalurinn er dásamlegur, mikið má þakka fyrir þá blessun að borgar- og bæjaryfirvöldum tókst ekki að skemma hann.

1. maí

Lifði af prófið í gær. Við Kate fórum og fengum okkur snarl niðrí bæ eftir prófið - hinar stelpurnar voru allar stungnar af. Fattaði ekki að það væri frídagur í dag - og það meira að segja tvöfaldur. Alveg er það alveg undarlegt hvað maður dettur úr tengslum við raunveruleikann í próftörnum. Held ekki ég fari í 1.maí göngu þó það væri alveg full ástæða til þess núna - trúi því ég einbeiti mér bara að því að lykla Ársrit Útivistar ...

mánudagur, apríl 28, 2008

Sjónvarp og próflestur

Ég sjónvapslausa konan laumaðist undan lestri í kvöld og horfði á Ný Evrópa með augum Palins eða Michael Palin's New Europe: Austrænt yndi. Snilldar þáttur - lá við að maður finndi lyktina líka. Dauðsé eftir að hafa misst af fyrsta þættinum. Hann var víst um Albaníu. Þangað kom ég fyrir margt löngu, gríðarlega fallegt land og elskulegt fólk. Svo fékk ég besta ís heimsins í Elbasan. Já annars svo hefur mér líka tekist að lesa Nornina í Portobello eftir Paulo Coelho. (ég er samt búin að læra líka!) Það skemmir mann ekkert að lesa þessa bók - og endirinn kom á óvart.

sunnudagur, apríl 27, 2008

úff

Það er svo gaman að föndra þegar maður á að vera að læra ... betra að gera allt annað en það sem maður á að vera að gera. Hvenær skildi maður eiginlega fullorðnast.

laugardagur, apríl 26, 2008

ævintýri

Lenti aldeilis í ævintýrum í gær. Fór í strætó vestur í Háskóla. Á gatnamótum Miklubrautar og Háaleitisbrautar hafði löggan lokað Miklubrautinni en sleppti samt stætó áfram þannig að við lentum í að bíða þar í eilífðartíma (fannst mér) á meðan löggan samdi við krakkahóp sem stoppaði umferð við Kringlumýrarbrautina um að hleypa okkur framhjá. Komst vestureftir og náði síðasta bitanum af aðalfundi B&U og svo fórum við í rútu upp í VR þar sem krakkaskríll stoppaði rútuna. Ein stelpanna fór út að reyna að semja við krakkana svo þau skemmdu ekki rútuna en það fór ekki betur en svo að hún lenti í ryskingum. Löggan kom og lét þá (þetta voru bara strákar) hleypa okkur framhjá en þeir eltu okkur inn í húsið - veit ekki alveg hvað þeir voru að hugsa. En voru samt svolítið fyndnir. Vissu ekki alveg hverju þeir voru að mótmæla - ég trúi best þessu með bíóverðið! Það var vel tekið á móti okkur í VR og við frædd um rafræna skjalastjórn. Svo fórum við í Kópavog og spiluðum Lazertag - svakalega skemmtilegt - og ein besta brennsla sem ég hef farið í. Það bogaði af manni svitinn. Ég væri sko alveg til í að fara þarna oftar. Ferðin endaði á Tapas niður í Hlaðvarpa. Fengum góðan mat. Mér þótti beikonvöfuðu döðlunar bestar - og svo náttúrlega ábætisrétturinn :-). Frábær dagur í alla staði þó ég hefði viljað sleppa að sjá múgæsinguna í krakkahjörðinni.

föstudagur, apríl 25, 2008

Afleggjarinn

Í kæruleysi mínu í gærkvöldi byrjaði ég að lesa bókina Afleggjarinn eftir Auði A. Ólafsdóttur. Kláraði hana í morgun. Yndisleg bók. Mæli með henni.

fimmtudagur, apríl 24, 2008

Gleðilegt sumar

Gleðilegt sumar dúllurnar mínar. Dagurinn byrjaði ósköp vel með fögrum fyrirheitum og lestri - fór í gönguferð um hádegi og ætlaði svo að halda áfram að vera dugleg að læra en lagði þá í leti og ómennsku. Suss. Er mikið búin að pæla í lögregluofbeldi og vörubílsstjórum. Fór í gær að þvo Litla Rauð og varð skelfingu lostin þegar tveir risabílar, annar með moldarhlass æddu framhjá mér upp rampinn upp á Breiðholtsbrautina. Ég var á 70 (það er 50 km hámarkshraði þarna) hélt hann ætlaði að keyra yfir mig. En þeir voru náttúrlega á leið til að aðstoða félaga sína í nauðum. Þessi læti minna mig á Osló á árum áður. Þá voru árviss slagsmál niðri í bæ nóttina fyrir 1. maí. Táragas og læti. Og virðulegt fólk kom með fjölskylduna í bæinn að horfa á lætin og varð fúlt ef það varð ekki nógu mikið stuð eða það varð fyrir einhverju hnjaski.

sunnudagur, apríl 20, 2008

vefsíðan flogin

Búin að senda vefsíðuna frá mér - má ekki vera að því að leika með mér hana lengur. Búin að skrifa skýrsluna líka. Skila henni um leið og ég fer í skráningarprófið á morgun. Þá er allavega tvennt frá af verkefnaflóði vorsins. Ætlaði að klára vefinn í gær og byrja að kíkja á næstu verkefni í dag. Held það verði þó að bíða til morguns og lykluninn lendi á undan rafrænu gagnasöfnunum í forgangsröðuninni. Já úps - svo verður víst að lesa fyrir prófið sem verður eftir viku. .... Mér leiðist ekki allavega. :)

laugardagur, apríl 12, 2008

Vefkvein

Búin að sitja allan daginn og dunda við litla vefófétið - ætlaði svo að setja inn mynd til gamans - og hvað gerðist - blahhh - get heldur ekki lagað. Þetta er nú ekki einleikið. Mig dreymdi í nótt ég félli í dönsku. - Varð frekar undrandi. Vissi ekki að ég væri í dönsku og þar að auki fannst mér undarlegt (meira að segja í draumnum) að ég hefði fallið í DÖNSKU. Kom on. Ætli þetta þýði að ég falli í vefstjórninni?
Trúi því ekki heldur en mér er farið að þykja þetta verkefni taka of mikinn tíma frá öðrum fögum. (En þetta er samt gaman).

fimmtudagur, apríl 10, 2008

Meira vefsukk

Kate sýndi mér í dag hvernig ég á að búa til rosafína flipa - bjó þá til og þeir eru flottir. En ... svo þegar ég fór að sannreyna síðurnar þá voru allar í klessu. Er búin að laga þetta en hliðarlínurnar eru týndar á tveim síðum - og IE á stóru tölvunni er eins og sá ljóti hafi hrært í síðunum. Bara skil þetta ekki. Leit vel út niðri í skóla í dag og líka í fartölvunni. Má ekki vera að hugsa um neitt annað í náminu - þetta er gríðarlega tímafrek handavinna.

miðvikudagur, apríl 09, 2008

Vefsíðugerð

Að hamast við að búa til vefsíðu með html og css - og þarf að staðreyna þær hægri vinstri. Var búin að búa til voða fína síðu - kóðinn í lagi og virkaði vel í þrem vöfrum á fartölvunni. Svo þegar ég kíkti hana á fullorðnum skjá í Internet Explorer fór hún alveg út og suður. Ég bugast - hætt í kvöld. En suss - fattaði það allt í einu að klukkan er 9 og ég gleymdi að borða kvöldmat. Þetta hlýtur að hafa verið gaman.

sunnudagur, apríl 06, 2008

Nýr tölvuskjár

Sit núna gríðarlega roggin fyrir framan 17 tommu kýrskíran túbuskjá. Liggur við ég fái víðáttubrjálæði. Yndislegir vinir mínir voru með einn sem þau þurftu ekki að nota og ég fékk hann. En mikið rosalega eru svona fyrirbæri þung!

föstudagur, apríl 04, 2008

tæknin að stríða

Gamli tölvuskjárinn gaf upp andann í dag. Ekki gott því það var ritgerð í tölvunni sem ég kunni ekki að veiða út án skjásins. Hélt ég hefði verið búin að senda ritgerðina frá mér - en hafði gleymt að hengja hana við ! Stundum er maður bara óheppinn. Þurfti að taka gamla útgáfu og vinna upp á nýtt. Kannski hún hafi bara orðið betri :) En - núna vantar mig nýjan skjá - á einhver gamlan nothæfan tölvuskjá???

laugardagur, mars 22, 2008

Gamalt sjónvarpsgrín

ARG - mikið viðbjóðslega getur Hjálmar Hjálmarsson verið hryllilega leiðinlegur. Eins og var gaman að horfa á gömlu sketsin. Þau voru náttúlega misfyndin en sum voru algjör snilld. Vil fá meira af gömlu sjónvarpsgríni - Hjálmarslausu - nema hann má sjást í gömlum upptökum. En hvernig var það, var það ekki 1986 áramótaskaupið sem var fyndnast?

föstudagur, mars 21, 2008

gleðigjafi um páska - eða páskaungi?

Þetta er Fóa feykiróa sem er páskagestur hér í Trönuhjallanum meðan þjónar hennar brugðu sér vestur á firði. Ætlaði að taka alvöru mynd af henni em álfarnir hafa greinilega fengið myndavélina lánaða - svo þetta er símamynd og ekki góð. Fóa feykiróa er búin að vera hérna í næstum tvo sólarhringa og er sannur gleðigjafi. Syngur og blístrar glaðlega. Gargar reyndar smá - ef það koma gestir - og tekur stundum smá flugæfingar í búrinu. Ótrúlega mikill félagsskapur í svona fyrirbæri - ég á miklu auðveldara með að halda mig að verkefnavinnu fyrir bragðið. Hefði örugglega látið freistast af góða veðrinu og farið út að hjóla hefði ég verið hér alein og frústreruð yfir vefverkefninu. Búin að taka viðtölin - á bara eftir að smíða þetta í 3.500 orða ritgerð. Hlustaði á Spurningakeppni fjölmiðlanna í dag. Stolt af mínu fólki á RÚV - þó það sé orðið RÚV ohf. þá er það samt alltaf mitt.