mánudagur, ágúst 18, 2008
Kárahnjúkar og helgarheimsókn
Við fengum skemmtilega heimsókn um helgina. Raggi og Adam komu, við elduðum lambalæri þeim til heiðurs á laugardagskvöld og fórum svo í alvöru sunnudagsbíltúr. Fyrst var farið í Hallomsstaðaskóg og dáðst að fallegustu trjánum og blómunum - og bíflugunum (sú mynd kemur seinna. Svo keyrðum við upp á Kárahnjúka og við sögðum þeim að sjálfsögðu allt sem við mundum upp úr Hrafnkelssögu. Við keyrðum yfir stífluna - það var síðasti dagur sumarsins til að gera það og fyrsti dagur haustsins sem flæddi yfir svo við fengum að sjá Kárahnjúkafossinn. Við stoppuðum á stíflunni og tókum myndir - vorum skömmuð fyrir það því þarna voru skilti sem sögðu að þarna væri bannað að vera á gangi - en en - við gerðum bara eins og hinir... Allavega þetta var voða gaman. Sáum ekki Snæfell því það var í felum. Þegar við komum niður aftur fengum við okkur kaffi á Skriðuklaustri. Hlaðborð - eins og fyrsta flokks fermingarveisla. Og eins og þetta væri ekki nógur bíltúr þá skutluðumst við niður á Seyðisfjörð og rúntuðum um bæinn og fjörðinn og skoðuðum hús - og ónýta bíla. Það er eins og sumir bændur séu að reyna að setja á stofn bílaminjasöfn - eða eitthvað.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli