þriðjudagur, nóvember 11, 2008

Hagfræði fyrir byrjendur

Þarna fékk ég senda dæmisögu sem var auðvelt að skilja :-)
Í þorpi einu birtist maður og kvaðst vilja kaupa apa af þorpsbúum á 1000 krónur stykkið. Þar sem mikið var um apa í nágrenni þorpsins fóru þorpsbúar að veiða apana og selja manninum þá. Maðurinn keypti þúsundir apa af þorpsbúum á 1000 krónur. Þegar framboðið fór að minnka bauðst maðurinn til að borga 2000 krónur fyrir apann. Aftur jókst framboðið um tíma, en síðan minnkaði það enn frekar og hætti loks alveg þar sem erfiðara var fyrir þorpsbúa að finna fleiri apa til að selja.

Maðurinn tilkynnti þá að hann mundi borga 5000 krónur fyrir hvern apa sem hann fengi, en hann þyrfti að skreppa frá í smá tíma og aðstoðarmaður hans mundi sjá um kaupin á meðan. Eftir að maðurinn var farin hóaði aðstoðarmaðurinn þorpsbúum saman og bauðst til að selja þeim apana, sem voru geymdir í búrum, á 3500 krónur stykkið. Fólkið gæti svo þegar maðurinn kæmi aftur selt honum apana á 5000 krónur. Þorpsbúar söfnuðu saman öllu sínu sparifé og keyptu apana af aðstoðarmanninum. Síðan hefur ekkert spurst til mannsins eða aðstoðarmannsins. Ofangreinda sögu fékk ég senda áðan. Eftir að hafa lesið hana skildi ég allt í einu betur íslenska bankakerfið og hlutabréfamarkaðinn.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Svo er bara að vita hvort maður sé í hlutverki þorpbúans, mannsins, aðstoðarmannsins eða jafnvel eins apans.

Er samt nokkuð viss að ég er ekki í hlutverki mannsins eða aðstoðarmannsins. Uhmm!

JS

Til að muna .. sagði...

Ég held við hljótum að hafa verið aparnir frænka mín.