þriðjudagur, desember 01, 2009

Bara

Langt síðan ég skrifað e-a hérna. Lítið að frétta. Ritgerðin mjakast lúshægt áfram og það er gaman í vinnunni. Jólaskemmtun framundan og spurt hvort ég væri búin að finna til jólakjólinn! Hef ekki átt svoleiðs síðan ég var 10 ára. Ný áskorun altsvo.

sunnudagur, september 20, 2009

Bókaþjófurinn

Lauk við að lesa Bókaþjófinn eftir Markus Zusak í dag. Heillandi bók. Mæli með henni.

föstudagur, september 04, 2009

Náttfatadagar

Leiðist - er með pest - skreið heim um hádegi í fyrradag og var hundlasin í sólarhring og svaf - en vantar núna e-a skemmtilegt að gera/lesa. Ætla að vera stilt og prúð um helgina og ná þessu alveg úr mér. Haus- og beinverkir horfnir og bara kvef eftir. Snöft.

sunnudagur, ágúst 23, 2009

Leti

Var allt of lengi í höfuðstaðnum í gær - og labbaði mig upp að öxlum (minnst). Byrjaði á að hvetja hlaupara og endaði á Borgarbókasafninu þar sem ég nældi mér í bók. Lá í leti í dag og las téða bók, Frelseren eftir Jo Nesbö, og hafði mikið gaman af. Nesbö skrifar góða krimma og ég fíla Oslóarkrimma. Verulegur aukabónus þegar maður þekkir staðhætti.

þriðjudagur, ágúst 18, 2009

Sunnunammi

Sunnunammi – eða eiginlega Lovísunammi
80 gr. smjör
280 gr. marsmellows
5-6 bollar rice crispies

bræða saman smjör og marsmellows
hella rice crispies út í bráðina
hella á smjörpappír og dreifa úr
setja annan smjörpappír ofan á og eitthvað þungt til að pressa
skera svo í litla kubba þegar þetta hefur kólnað

Sunna says:
þetta er nammi

mánudagur, ágúst 17, 2009

Helgarreisa norður

Gerði þrjár dásamlegar uppgötvanir um helgina. Grenivík, Safnasafnið og Baggalút "life" á Græna hattinum á Akureyri. Þetta í bland við góðar vinkonur er engu líkt. Fékk líka bónus á Baggalútinn. Megas tók nokkur lög með þeim.

þriðjudagur, ágúst 04, 2009

Vinnan

Fyrsti dagurinn sem ég er alein í vinnunni - sat bara og las. Sem betur fer er lítið að gera í augnablikinu svo ég hef tíma til að setja mig inn í málin. Fólk fer að koma til vinnu eftir sumarfrí svo þetta breytist trúlega fljótt.

miðvikudagur, júlí 29, 2009

3. í vinnu

Þriðji í vinnu. Kuhlthau-heilkennið á fullu.

þriðjudagur, júlí 14, 2009

Púddur og jarðhræringar

Jarðaskjálftamælirinn í Kötukoti er greinilega mjög virkur. Ég fann ekki neitt en fannst ég sjá hreyfingu fyrir utan gluggann. Og svo tók ég eftir að olíulampinn sveiflaðist - lengi ... Kíkti á vef Veðurstofunnar í morgun og þar stóð
Mánudagur 13.07.2009 22:44:52 63,997 -20,982 1,8 km 0,3 38,02 6,6 km N af Selfossi. Ætli ég sé 6,6 km norður af Selfossi? :) Það gæti vel verið.
Er hér í púddupössun í nokkra daga. Haninn er ekki mjög reglusamur. Hann á það til að gala eina syrpu klukkan fjögur eða hálffimm en í gær vaknaði hann ekki fyrr en klukkan 8.10. Í morgun kom hann aftur á móti með tvær syrpur, fyrst fyrir 5 og svo aftur klukkan 7. Meina það - ætli maður ætti að kaupa vekjaraklukku handa honum?

sunnudagur, júní 14, 2009

Garðyrkja í morgunsárið

Fór með að keyra Rúnu frænku út á flugvöll eldsnemma í morgun, svona til að kveðja og halda mágkonu hennar selskap á bakaleiðinni. Dásamlegt skýjafar, tvöfaldur regnbogi og fallegir sólstafir. Og sjórinn spegilsléttur.
Fórum svo í kirkjugarðinn þar sem við plöntuðum á leiði mömmu og pabba blákvisti, bleikum blómum sem ég held heiti Cosmos og svo tóbakshornum. Búnar að því fyrir klukkan 8 og fórum svo í kaffi í bakarínu í Suðurveri. Svona eiga sunnudagar að byrja!

sunnudagur, júní 07, 2009

sunnudagur, maí 10, 2009

Æfingaprógram

Hef 20 daga til að koma mér gott form ...
Góðar hugmyndir einhver?

þriðjudagur, apríl 28, 2009

Daginn fyrir próf

Að læra er eins og að róa gegn straumnum,
þegar maður hættir því,
rekur mann til baka.
Gamalt kínverskt máltæki.

fimmtudagur, apríl 23, 2009

mánudagur, mars 30, 2009

sunnudagur, mars 08, 2009

8. mars

Hér fyrir austan bara snjóar og snjóar og snjóar ennþá meira. Fór aðeins út að labba í morgun, vantar snjóþrúgur! Hvar er vorið eiginlega? En það verður að viðurkennast að hvítur snjór skreytir veröldina.
Ánægð hvað konum gekk vel í prófkjörum helgarinnar. Mikið væri gaman ef helmingur þingheims næst yrði duglegar, greindar og samhentar konur. Það er passleg ósk á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

föstudagur, mars 06, 2009

kvart

Næstum búin að setja súrmjólk í kaffið. Reyndi að ræna kaffibolla mannsins fyrr í morgun. Er það nú furða að mér gangi brösulega með ritgerðina!

laugardagur, febrúar 21, 2009

Bókaklúbburinnn

Fundur í bókaklúbbnum í gær. Mætti þó ég hefði bara lesið aðra bókina sem var Glerkastalinn og ég las hana um jólin. Hin bókin var Konur eftir Steinar Braga, mikið umtöluð bók og í útláni á öllum bókasöfnum sem ég hef aðgang að. Verð að viðurkenna að eftir að hafa hlustað á stöllur mínar í gærkvöldi að ég er bara feginn því að hafa ekki náð í bókina. Reyndar var það samdóma álit þeirra að bókin væri mjög vel skrifuð. En Glerkastalinn virðist vera hreinar gleðibókmenntir í samanburði við Konur.
Ég held áfram að ströggla við ritgerðarsmíð. Finnst ég alltaf vera að fara einhverja Krísuvíkurleið. Tók mér reyndar smá pásu frá skrifunum því bóndi minn heimsótti höfuðborgarsvæðið í nokkra daga og mér fannst skemmtilegra að sinna honum aðeins :)

miðvikudagur, febrúar 04, 2009

Hálf gul sól og svolítið um ritgerð

Varla farin að skrifa staf en tókst samt að teikna einhverjar töflur í dag og pæla í hvað ég ætli að hafa i ritgerðinni. Kate segir það séu 55 dagar þar til við þurfum að skila. það þýði að framleiðslu upp á 2 síður á dag ... - þrjár ef ég dreg þetta eitthvað lengur. Hún er allavega byrjuð. En - úff. Sá góðan frasa á Fésbókinni áðan "It doesn't hurt to be optimistic. You can always cry later.”
Kláraði Hálf gul sól í gær. Var lengi að lesa hana. Ekki bók sem maður tætir í sig. Góð en svakalega erfið líka. Hálf gul sól var á fána Bíafra í frelsisbaráttu þeirra. Mæli hið sterkasta með bókinni.

miðvikudagur, janúar 28, 2009

Verkkvíði?

Einhver góð ráð um hvernig maður eigi að halda sér að vinnu, lesa fagbækur og vinna að ritgerð? Ég snýst bara í hringi og geri ekkert af viti.

mánudagur, janúar 26, 2009

Meiri bókalestur

Kláraði Dimmar rósir eftir Ólaf Gunnarsson í gærkvöld. Fann hana í Bókasafni Kópavogs þegar ég var að snudda þar um daginn og lét freistast því hún gerist á árinum 1969 til 1971. Ég veit eiginlega ekki hvað mér finnst um bókina. Held kannski að ég þurfi að melta hana.
En það var auðvelt fyrir mig að setja mig inn í tímabilið og muna eftir þrengslunum í stiganum í Glaumbæ, Las Vegas og Led Zeppelintónleikunum. Naut þeirra reyndar ekki því ég var með mígrene og varð að fara heim.

laugardagur, janúar 24, 2009

Yndislestur - ekki námsbækur!

Í fyrradag fór ég á bókakvöld með gömlum vinkonum. Við höfum ekki hittst í ár - held ég - en það á að breyta því aftur - stefnt að því að hittast einu sinni í mánuði fram á vor. Við röbbuðum bara létt um hvaða bækur við hefðum lesið upp á síðkastið og settum okkur fyrir hvað ætti að lesa fyrir næsta fund. Þetta var óskaplega gaman - reyndar fór seinni helmingur kvöldins í umræður um stjórnmál - það er erfitt að gleyma þeim málum þessa dagana.
En - ég kom heim með Lífstíð eftir Lizu Marklund og Myrká eftir Arnald. Veit ég má ekki vera að því að lesa skáldsögur en ætlaði bara rétt aðeins að líta á Lizu fyrir svefninn - og las til 3!. Hélt áfram þegar ég vaknaði og kláraði. Liza er skrambi skemmtileg - ég er viss um að Annika er með gríðarleg einhverfueinkenni. Svo ætlaði ég að vera rosadugleg að læra - en varð auðvitað að hlusta á blaðamannafund forsætisráðherra og varð svo brugðið að ég gat ekki fest hugann við skólabækur. Fékk mér þar með góða ástæðu til að lesa Arnald og glefsaði hann í mig. Endaði svo með að heimsækja vinahjón í gærkvöld, sat horfði á gamanmyndir með þeim og borðaði nammi.
Í dag druslaðist ég aðeins niður í Þjóðarbókhlöðu og svo á Austurvöll klukkan 3. Fínn fundur og skeleggir og flottir ræðumenn.

föstudagur, janúar 16, 2009

Klapparstígur 17

Einu sinni fyrir langalöngu átti ég heima á Klapparstíg 17, þar sem brann í nótt. Bjó uppi í risi í tveimur herbergjum með kærastanum mínum. Pabbi hans og mamma áttu heima á miðhæðinni. Þetta var gamalt hús. Ég var bæði draughrædd og eldhrædd í því. Var búin að hugsa upp hvernig ég ætti að komast út ef það kviknaði í. En tengdamamma sagði að það væru engir draugar þarna. Hún var - og er trúlega ennþá mjög næm. Ég trúði henni og vissi að brakið í stiganum væri bara að þrepin væru að taka sig eftir að ég hafði labbað upp. En samt - mér leið aldrei vel þarna ef ég var ein. Eigi að síður hefur mér alltaf þótt vænt um þetta hús og horfi ástúðlega á það þegar ég labba framhjá. Ég á góðar minningar um frumraunir í eldamennsku og pönnukökubakstur án mjólkur - en við áttum piparmyntulíkjör. Litlu systkini kærastans neituðu að borða pönnukökurnar því þær voru grænar. En þær smökkuðust ágætlega. Upp í risi voru afskaplega fallegir steyptir ofnar sem ekki var hægt að kveikja í lengur. Voru þarna bara sem skraut. Hef oft hugsað um að ef ég eignaðist einhverntíman hús þá vildi ég eiga svona ofna.

p.s. Kærastinn er að sjálfsögðu fyrrverandi og tengdamamman fyrrverandi tilvonandi og mér er stórlega létt því enginn dó í brunanum í nótt.

þriðjudagur, janúar 13, 2009

Góð heilsa

Fór á mjög áhugaverðan fyrirlestur hjá Matta Ósvald niðri í Maður lifandi áðan. Fyrirlesturinn nefnist "Góð heilsa er auðveldari en þú heldur" og fjallar m.a. um sýrustig líkamans eða PH gildið. Mæli með þessum fyrirlestri ef fólk hefur tækifæri. Kíkti aðeins í Þjóðarbókhlöðuna í dag og fór svo og hitti leiðbeinandann minn sem gaf mér góð ráð varðandi ritgerðina. Labbaði alla leiðina frá Háskólanum upp í Borgartún með viðkomu í banka í miðbænum og einni búð upp á Hlemmi. Yndislegt að rölta upp Laugaveginn í snjókomu. Það svoleiðis kyngdi niður að ég varð eins og snjókerling. Frábær dagur.

miðvikudagur, janúar 07, 2009

Síðbúin áramótaheit


Mynd af
vef um íslenska þjóðbúninginn
Hvernig væri að gera áramótaheit eins og aðrir gera. Veit það er kominn 7. jan. en hva... aldrei of seint.
Klára upphlutinn sem ég byrjað á fyrir ... - æi - gleymum því. Á bara eftir sauma skyrtuna og ganga frá svuntunni og húfunni.
Klára ritgerðina mína fyrir 1. apríl.
Út að labba a.m.k. 20 mínútur á HVERJUM degi.
Þetta ætti nú allt að vera létt verk og löðurmannlegt. Hefst allt með réttu vinnulagi.

þriðjudagur, janúar 06, 2009

Glerkastalar og jólafrí

Síðasti dagur í jólafríi og skáldsögulestri. Í morgun hef ég lesið Glerkastalann eftir Jeannette Walls. Gríðarlega spennandi og skemmtileg ... sorgleg ... og allavegana bók. Fær 100% meðmæli.
Það er að byrja að rökkva hérna fyrir austan. Það hefur verið smá snjókoma í allan dag en virðist vera hlé í bili. Ætla að vappa upp í bókasafn og skila bókakostinum og kveðja þar. Jólunum er alveg að ljúka og þá tekur alvaran við.

mánudagur, janúar 05, 2009

Meiri bókalestur

Næ ekki að lesa allar bækurnar sem ég nældi mér í á bókasafninu. Þarf að skila þeim á miðvikudaginn. En í kvöld las ég Í spegli, í gátu eftir Jostein Gaarder. Hann er enn að pæla í tilverunni, lífinu og dauðanum. Falleg bók um stelpukrakka sem liggur fyrir dauðanum. Mæli með henni. Bjössi er á næturvakt og ég les og bakaði haframjölsmuffins sem ég set svo í frysti. (Fyrir utan þær sem ég át strax.)

sunnudagur, janúar 04, 2009

Lesa, sofa, borða

Í fyrradag lauk ég víð að lesa Borða, biðja, elska. Var heilluð af fyrsta hlutanum um Ítalíu en hinir náðu mér ekki eins. Mæli samt með henni. Í dag kláraði ég svo að lesa Bláir skór og hamingja um hana Precious Ramotswe í Botswana. Hef ekki lesið þessar bækur í mörg ár. Gleypti í mig þessar fyrstu þegar ég uppgötvaði þær, fékk leið á þeim en þessi var fín. Það er líka gaman þegar maður finnur lykt þegar maður les bækur. Þá er greinilega verið að gera eitthvað rétt.
Við fórum í partý niður á Reyðarfjörð í gærkvöld og sváfum í bílnum í nótt. Þetta var sem sagt fyrsta útilega ársins og ég man ekki eftir annarri fyrr. Það var heitt og fínt í bílnum og við sváfum eins og ungar í hreiðri. Elduðum svo jólahangikjötið og borðuðum brot af því í kvöld. Afgangurinn fer í frysti og verður væntanleg álegg næsta hálfa árið.