föstudagur, júlí 16, 2010

Í fríi?

Síðasti vinnudagurinn á Safninu í gær. Hálfur mánuður í næsta verkefni. Mikið að gera á stuttum tíma - gæti ég fengið súperskipulagshæfileika?

Hitti Hrefnu og Kiddý í gær - sáum lítið Bryndísarklón í vagni fyrir utan Sólon. Dásamlegur dagur í Reykjavík.

mánudagur, júlí 12, 2010

Esjurölt í maí

Frá 17 maí 2010

Vesturland í sumarblíðu

Dásamleg helgi að baki. Brjálaðist í tiltekt á föstudag eftir vinnu. Æddi svo upp í Borgarnes og fékk gistingu í sófanum í herberginu "mínu". Fórum á laugardagsmorgni þrjú í bíltúr um Snæfellsnes. Yndislegt veður og gaman að vera með fólki sem þekkir til í svona bíltúr. Röltum frá Arnarstapa að Hellnum - og Baldur hljóp til baka eftir bílnum meðan við nöfnur nutum blíðunnar á Hellnum.
Vel tekið á móti okkur af húsráðendum á Hellissandi. Þarna voru börn, hundur með kraga og saumaða síðu - sprækur kettlingur og allt skreytt og á fullu á Sandaragleði. Röltum léttklædd um bæinn og Óskar keyrði með okkur á Rif og sýndi bátinn og beitningarskúrinn. Ásamt verðmætum sem renna beint í sjóinn.
Jökullinn skartaði sínu fegursta. Við fórum á ljósmyndasýningu í Hvíta húsinu í Krossavík og enduðum í megafjölskyldugrillveislu. Keyrðum í Borgarnes í kvöldsólinni.
Á sunnudagsmorgni skoðaði ég leikbrúðusafnið sem ég mæli með fyrir alla. Skrapp á Lambastaði og hitti afganginn af ættinni. Þar var líka brjáluð blíða og rjómalogn - 18 stiga hiti sagði Gummi.
Keyrði í bílalest sem náði frá Borgarnesi og í bæinn með Elínu frænku mína innanborðs. Hún hafði beðið um að fá að koma með í Borgarnes - en ákvað að fara lengra þegar hún vissi ég ætlaði beint.

laugardagur, júlí 03, 2010

Þórsmörkin


Fór í dagsferð í Þórsmörk með Auði í dag. Tókum rútu á BSÍ klukkan 8. Skiptum um rútu og bílstjóra á Hvolsvelli. Stoppuðum við Seljalandsfoss og við Gígjökul. Fáránleg breyting á einum stað. Keyrðum fram á jeppa sem hafði brotið undan sér í einum læknum á leiðinni inn. Krossá rosalega leiðinleg. Morgunferðin úr Húsadal hafði víst verið skelfileg. En grafan var búin að vera að laga síðan og vörubíll að finna góð vöð. Fórum yfir í fylgd með vörubílnum.
Skiptum um bíl og bílstjóra í Húsadal og fórum inn í Bása. Þar tók Ingi á móti okkur og tveir flugbjörgunarstrákar sem eru þarna við gæslu. Okkur fannst við komnar heim þegar við komum í Bása - tala nú ekki um þegar maður kannast við skálavörðinn. Borðuðum og vöppuðum blómum skrýddan Litla Básahring. Fáir á tjaldstæðinu. Vorum svo keyrðar yfir í Langadal og skokkuðum yfir í Húsadal og vorum þar á sama tíma og rútan. Fréttum af jeppa sem hafði farið á flot í Krossá og stórskemmst. En en enginn skaði á fólki.
Mættum nokkrum bílum á leiðinni inn í Mörk og bíllinn sem hafði verið stopp í miðjum læknum var kominn upp á bakkann og búið að rífa undan honum vinstra framhjólið. Frábær dagur og minnir mann á að það er nauðsynlegt að heimsækja Þórsmörk reglulega. Við vorum einu íslendingarnir í rútunni og fengum prinsessumeðhöndlun af bílstjórnum. Já - og Ingi spurði hverkonar vitleysa þetta væri eiginlega að koma svona og fara heim á laugardagssíðdegi - og það fyrstu helgina í júlí! :) Veðrið var frábært, mest þurrt þar sem við vorum en smávæta síðasta spölinn í Húsadal. En greinileg hellidemba skammt frá.

föstudagur, júlí 02, 2010

Öðruvísi kvennakrimmi

Hólmfríður í bókasafninu rétti mér um daginn nýlega bók, Stelpurnar mínar eftir Susanne Staun. Þekkti ekki nafnið - og þótti byrjunin skrýtin - en - bráðfyndin og skemmtileg bók. Konan skrifar um Fanny Fiske og vinkonur hennar sem eru stórskrýtnar og skemmtilegar og leysa glæpamál á óhefðbundinn hátt. Ætla að kanna hvort ekki finnist fleiri bækur um hana á söfnunum hérna.

fimmtudagur, júlí 01, 2010

Bílamál og bókhald


Var að dunda mér við heimilisbókhaldið í kvöld. Eyddi meira í júní en aðra mánuði. En það var svosem ástæða fyrir því. Lét tékka á bremsunum í Litla Rauð og það var skipt um bremsuborða og diskana líka. Ágætt að muna að slíkt var gert í júní 2010.
Og svo sá ég Skugga minn í gær við bókasafnið. Það er svo fyndið - ég þekki hann hann á löngu færi. Hann er farinn að rygða svolítið blessaður - en alltaf jafn státinn. - Það mætti þó alveg bóna hann.