laugardagur, maí 31, 2008

Hafraklíðsmúffur

2 ¼ bolli hafraklíð (ég nota líka haframjöl)
1 msk lyftiduft
¼ bolli sykur eða hlynsíróp
2 msk saxaðar möndlur
handfylli af rúsínum eða bláberjum
¼ bolli kókósmjöl (má sleppa)
1 ¼ bolli undanrenna
hvítur úr 2 eggjum eða einu stóru (ég nota tvö heil egg)
2 stórir vel þroskaðir bananar

Þurrefnum blandað saman
Mauka önnur efni í matvinnsluvél og blanda saman við þurrefnin
Setja í muffinsform með plássi til að hefast
Ef bláber eru notuð þá strá þeim yfir
Bakað við 200ºC í um það bil 15 mínútur.
Kæla - setja í poka og frysta.
Í uppskrift stendur - hita í örbylgjuofni á hæsta í 30 sek. - ég læt þær bara þiðna á eldhúsborðinu.
Uppskrift út bókinni Einfaldaðu líf þitt : 100 leiðir til að draga úr streitu og njóta þess sem raunverulega skiptir máli eftir Elaine St. James. Búin að baka svona tvisvar og þær klikka ekki.

rigning

Hélt ég yrði fúl og svekkt þegar sólin færi - en - en - þessi rigning er voða pen, það er logn og allt hefur snargrænkað á þessum 2 rigningardögum.
Rukolan mín er voða roggin og ertublómin sem Bjössi pantaði eru orðin 10 sm og komin úr vermikössunum.
Það kom maður í gær með mælitæki og teiknaði punkta fyrir húsið á lóðinni. Það verður byrjað að slá upp í vikunni. Allt að gerast.

fimmtudagur, maí 29, 2008

skjálftinn

Ægilega er ég fegin að vera á Austurlandi núna. Mér er illa við jarðskjálfta. Reynar missti ég líka af 17. júlí skjálftanum en þótti seinni skjálfinn þá óþægilegur. Vona bara að allt sé í lagi hjá mínu fólki á Selfossi. En gleðifréttir dagsins er að ég eigaðist nýja fína frænku í dag. Gréta fékk enn eitt barnabarnið:)

mánudagur, maí 26, 2008

Meira blíðviðri

Þar sem við Sjöfn létum fara vel um okkur í fína nýja rólusófanum hennar veltum við fyrir okkur hvernig í ósköpunum fólki tækist að vinna handtak þar sem er 30 stiga hiti eða meira. Við vorum firnalatar og bara 20 hér. Annars hjólaði ég yfir til hennar í Fellabæinn og þótti það bara nokkuð gott. Byrja að vinna á morgun og undirbúa mig undir skjalaverkefni sumarsins - megaspennadi - túristar blásnir af og bara skjöl framundan ...

sunnudagur, maí 25, 2008

Egilsstaðablíðviðri



Meiriháttar dásamlegt veður hér eystra. Við fórum í labbitúr - reyndar tvo - fyrst fórum við í smá skógargöngu og svo ákváðum við að labba upp á Fardagafossi en það er eitt af því sem helsti Egilsstaðasérfræðingur minn Inga Rósa segir að maður verði að gera reglulega. Og það var alveg yndislegur göngutúr. Ekki sála á ferðinni þarna bara fótspor í stígnum sem var orðin dálítið illa farinn.

dokar og áldýr

Keyrðum niðrá Reyðarfjörð í gær. Rúntuðum smá um og ég sá áldýrin - svo nú er ég bæði búin að sjá hreindýr og áldýr. Nei í alvöru mér þykir mjög sérstakt að sjá hreindýr tvisvar í sömu vikunni svona rétt hjá mér. Ég hef einhverntíman áður séð þau eins og punkta í fjarlægð - en aldrei svona í návígi. Við hittum vinnufélaga mannsins og díluðum við hann og keyptum af honum doka ... Það eru svona spítur sem maður notar til að byggja hús. Fengum lánaða kerru hlóðum á hana um 50 dokum og ókum með feng okkar heim. Losuðum svo af kerrunni þegar heim var komið. Ég var þreytt eftir átökin en agalega grobbin - er ekki með neinar harðsperrur í dag.
Las fyrir helgi bókina um Margréti Frímannsdóttur, Stelpa frá Stokkseyri. Skemmtileg bók, gott að lesa hana, fín samtímasaga og gaman að sjá hvernig kaupin gerast á eyrinni í pólitíkinni. Það eina sem fór í taugarnar á mér - fyndinn íslenskufasismi -er að Þórunn Hrefna sem skráir - og gerir það vel - skrifar ráðuneytin með stórum staf. Þa særir mína fornu textavarpssál.

þriðjudagur, maí 20, 2008

í 7. himni

Á sunnudagssíðdegi fyllti ég bílinn minn af því nauðsynlegasta. Keyrði austur fyrir Selfoss og tók hús á Kötu vinkonu minni. Sat þar um kvöldið í góðu yfirlæti og svaf alveg dásamlega í friðsældinni í sumarbústaðnum hennar. Lagði svo af stað í ferðina löngu klukkan 7.30. Stoppaði klukkan 9 í Vík í Mýrdal, stoppaði aðeins á Kirkjubæjarklaustri, stoppaði aðeins lengur í Nesjum í hádeginu og tók bensín. Þar var ég líka á síðustu dropunum. Sá svo einhver dýr - ég held í Hvalnesskriðum, og fór að pæla - eru þetta kindur á veginum - nei þau voru of stór. En þegar nær dró sá ég að þetta voru fimm hreindýr! Alveg við veginn. Náði þremur á símamyndavélina. Sá svo hóp af velhyrndum dýrum seinna en þau voru langt frá veginum. Kom heim á Egilsstaði fyrir klukkan 16 og var gríðarlega ánægð með ferðina. Fínt að keyra - lítil umferð og allt bara flott. Fékk svo verðlaun frá bóndanum - Olympus upptökutæki - alveg eins og ég óskaði mér. :-). Verður ekkert að vanbúnaði í eigindlegum í haust.

fimmtudagur, maí 15, 2008

point of no return

Búin að setja síðasta punkt - prenta og allt - vantar tvær kommur en s...
Á leið niðrí HÍ núna með tvö verkefni. :):):)

endaspretturinn

Vantar bara örfá lokaorð á vefskýrsluna mína. Ég tók og greindi mitt gamla uppáhaldsfélag Útivist. Var bara nokkuð ánægð með vefinn þeirra en benti samt gáfulega (hm) á ýmislegt sem betur mætti fara. Nú ætla ég að sofa eins og grjót í nótt. Skrifa lokaorð í fyrramálið, búa til forsíðu og annað skemmtilegt og skila henni um hádegi. Svo ætla ég bara dingla mér það sem eftir lifir dags. Sama þó rykmaurarnir seu orðnir óðir hér heima. Þeir mega sko skemmta sér smástund í viðbót.

þriðjudagur, maí 13, 2008

Ein ég sit og sauma ... eða eitthvað

Búin að sitja hér heima og reyna að vinna við vefverkefnið - finn alltaf betur og betur hvað ég er mikil félagsvera og á erfitt með að vera ein heima í lengri tíma. Hélt ég væri á góðri leið með að borða upp allt sem væri til í íbúðinni en samkvæmt þessari könnun ætti ég að geta lifað lengi án þess að fara út. Ég held þeir hljóti að gera ráð fyrir að það sé mikið góðu vatni aðgengilegu. Það er kannski andstyggilegt að gera svona test þegar maður veit af fullt af fólki innilokuðu í rústum í Kína. Jæja en samt - hér kemur prófið. How Long Could You Survive Trapped In Your Own Home?
Created by OnePlusYou - Free Online Dating

Eitt verkefni frá

Píndi besta prófarkarlesarann til að lesa yfir upplýsingaleiðaverkefnið. Ég held ég hafi aldrei fengið eins margar athugasemdir ... Sendi það af stað 3 mínútur fyrir miðnætti. Hrikalega happy, fyndið þó mér þyki verkefnið mesta moð þá er bara svo gott að vera laus við það. Vona bara að ég hafi verið að svara því sem ég átti að svara. Í fyrramálið stekk ég á næsta verkefni. Hef 2 daga í það.

sunnudagur, maí 11, 2008

gaaAAARRG


Fann hérna svona afskaplega huggulega mynd sem sýnir vel hvernig ég hef það þessa dagana. Myndin er því miður þrælstolin og ég hef ekki hugmynd um hvort það sé höfundaréttur á henni. Veit að samnemendur mínir eru álíka frústreraðir - nema Ólöf -sem skilaði verkefninu sinu á föstudaginn. Svo flink :)

föstudagur, maí 09, 2008

kvöldtuð

Sit hér hundpirruð yfir Google Scolar og reyni að gera skýrslu 2 í rafrænu gagnasöfnunum. Held ég gefist upp í kvöld og helli mér í þetta í fyrramálið. Ég verð að klára þetta verkefni um helgina svo ég hafi einhvern tíma fyrir vefverkefnið. Þar fíla ég mig sko út á túni.
Fékk einkunn fyrir síðasta verkefni þeim rafrænu í dag - rosalega ánægð - við fengum 9. :-). Það er gott að vinna með góðu fólki.
Lagði lokahönd á lyklunarverkefnið í dag. Heftaði og setti í plast. Ætla ekki að líta á það meir. ... held ég.
Svo er ég, Kópavogsbúinn, alveg rosalega stolt af mínu fólki i Útsvari í kvöld. Snilld að vinna Reykvíkinga með einu stigi.

miðvikudagur, maí 07, 2008

lyklunin búin - kannski

Kláraði lyklunina í kvöld - held ég. Búin að setja á heimildarlista, efnisyfirlit og búa til forsíðu. Nú þarf ég bara að ná mér í grimman prófarkarlesara ...
Svo er það bara að stökkva á næsta verkefni í fyrramálið. Fersk og útsofin. Það er gaman á vorin hjá námsfólki - ekki satt?

þriðjudagur, maí 06, 2008

mannætur og henda mat

Fékk áfall þegar mér varð á að hlusta á Kastljósið og heyrði hvað við hendum rosalega miklu - mat og allavegana dóti. Veit upp á mig skömmina. Ég henti nefnlega í dag. Björninn er hrifin af smurosti og við keyptum svoleiðis þegar hann kom síðast. En en þegar ég ætlað að smurja brauðið með þessu í dag þá fattaði ég að það er MJÖG langt síðan hann var á ferðinni. En rakst á þetta á bloggi áðan og varð að athuga hvað ég gæti fóðrað marga ... How many cannibals could your body feed?
Created by OnePlusYou

mánudagur, maí 05, 2008

verkefni og walker

Tók smá pásu frá lykluninni í dag og kíkti á verkefnið í Upplýsingaleiðum. Byrjaði á fyrstu skýrslunni sem átti að vera 1000 orð og mér fannst ég vera búin að gera þokkalega skýrslu eftir 500 orð! Hm - vantar greinilega eitthvað. Svo fór ég á fyrirlestur um jarðfræðinginn Walker í Öskju, það er verið undirbúa minjasafn um hann á Breiðdalsvík, það á að opna í ágúst. Hjörleifur Guttormsson flutti fínan fyrirlestur og sýndi myndir. Er hrædd um að ég verði miklu lengur á leiðnni austur en ég áætlaði því ég kem til með að þurfa að stoppa og skoða svona jarðfræðifyrirbæri sem hann benti á.

fimmtudagur, maí 01, 2008

Til hamingju með daginn

Fyrsti maí og ég fór í staðinn fyrir að fara í kröfugöngu í fyrsta hjólatúr vorsins. Þurfti að sinna erindi niður í Ármúla og ákvað að það væri fínt að hjóla. Pumpaði í dekkin, smurði keðjuna, fann fram hjálminn og hjólahanskana og æddi af stað. Dásamlegt veður og sáralítil umferð. Kom svo tilbaka eftir Fossvogdalnum. Hann var fullur af hlaupurum og hjólafólki og fólki að viðra sig og hundana sína. Sá hóp af ungum bleikklæddum stelpum sem voru í lautarferð í dalnum - með bleika sólhlíf. Sá líka fyrstu lóur vorsins - var búin að heyra í þeim en ekki sjá fyrr. Dalurinn er dásamlegur, mikið má þakka fyrir þá blessun að borgar- og bæjaryfirvöldum tókst ekki að skemma hann.

1. maí

Lifði af prófið í gær. Við Kate fórum og fengum okkur snarl niðrí bæ eftir prófið - hinar stelpurnar voru allar stungnar af. Fattaði ekki að það væri frídagur í dag - og það meira að segja tvöfaldur. Alveg er það alveg undarlegt hvað maður dettur úr tengslum við raunveruleikann í próftörnum. Held ekki ég fari í 1.maí göngu þó það væri alveg full ástæða til þess núna - trúi því ég einbeiti mér bara að því að lykla Ársrit Útivistar ...