mánudagur, júní 30, 2008

RÚV-uppsagnir

Hnuggin yfir því að haldið er áfram að reyna að murka lífið úr Ríkisútvarpinu - hægt mjög hægt. Nú eru lagðar niður 20 stöður og flestar munu tengjast Fréttastofu Útvarps sem var allavega lengi talinn besti fréttamiðill landsins. Spurning hve lengi FÚ tekst að halda þeim status. Átta manns sagt upp - mig minnir að við ohf væðinguna hafi verið talað um að fólk þyrfti ekki að óttast að missa vinnuna. Það góða í stöðunni er það að RÚVarar fá yfirleitt auðveldlega vinnu en það slæma að RÚVinu blæðir út.

föstudagur, júní 27, 2008

Fyrsta alvöru fjallganga sumarsins

Séð út Reyðarfjörð, Skrúður sést í fjarska Á fætur í Fjarðabyggð heitir skemmtilegt verkefni sem er gangi núna. Það eru 1 til 2 fjallgöngur á dag og svo kvöldvökur á kvöldin. Ég fór á Svartfjall í dag með mínum heittelskaða og u.þ.b. 26 öðrum. Hafði gleymt góðu gönguskónum fyrir sunnan en átti eina sem ég hef notað sem vetrarskó. Og þeir dugðu svosem alveg í tveggja skóa göngu. Svartfjall er milli Eskifjarðar og Norðfjarðar 1021 m hátt en það var svosem ekkert að marka því við lögðum bílnum á gamla Oddsskarðsveginum og löbbuðum þaðan - ca. 400 metra hækkun. Fengum ljómandi gott veður á leiðinni upp og frábært útsýni á toppnum í byrjun. En þar sem við sátum í spekt og borðuðum nesti og forkólfarnir grófu eftir gestabókinni í fönninni þá brast á með hríð! Grafið eftir gestabókinni Þegar gestabókin var fundin á rúmlega meters dýpi (hún var staðsett með gps-hniti) og búið að kvitta í hana æddum við niður í sólina. Ég fann mér laglegar og langar fannir og renndi mér á rassinum niður - og var ekki sú eina sem notaði þessa aðferð. Buxurnar sem ég keypti í gömlu Skátabúðinni fyrir margt löngu dugðu vel og það sá ekki á þeim eftir þessa meðferð. Þegar niður var komið var tekið á móti hópunum og þeir sem höfðu náð að ganga á tindana fimm undanfarna daga voru verðlaunaðir.
Rúntuðum smá á Eskifirði, keyptum harðfisk hjá að sögn besta harðfiskverkenda í heimi og komum við á nýja kaffihúsinu. Keyptum súkkulaðiköku - heita nýbakaða, algjört lostæti, og kaffi sem mér fannst mega vera sterkara. En bara huggulegt þarna og boðið upp marga rétti og kaffi og aðra drykki í ýmsum útfærslum. Enduðum svo í kvöldmat hjá Helga og Helgu og borðuðum nýveiddan þorsk sem húsbóndinn hefði sjálfur dregið að landi. Haldið að það sé lúxus að búa á Austfjörðum?

mánudagur, júní 23, 2008

gluggaveður

Skýin á Héraði 22.6.2008
Skítkalt á Austurlandi en alveg ótrúlega dásamlega fallegt gluggaveður. Já og líka í lagi þar sem sólin skín og í skjóli :-). Ég er illa kvefuð ennþá og bóndinn kominn í rúmið með hita, hausverk og beinverki. Sólin hæst á lofti og allir ættu að vera upp á sitt besta en en svona er það nú bara. Ef maður sleppur við vetrarpestir fær maður bara sumarpestir. Í austurátt nokkrum dögum áður

laugardagur, júní 21, 2008

landfræði

Komin heim aftur heim í 7. himinn eftir vellukkaða höfuðborgarferð. Var reyndar lasin en tókst að gera það sem ég fór til að gera og lærði helling. Fékk frábært flug báðar leiðir og rifjaði upp landafræðikunnáttuna.
Meiri landsfræðikunnátta - þetta fann ég á lokuð bloggi nöfnu minnar - verð að deila því með öðrum - gljúfra- eða glæfraferð. Var ekki einhver Indiana Jones mynd tekin þarna? Ég færi ekki þarna þó það ætti að drepa mig. Mér þótti nóg að fara á Prekestolen í Noregi.<

mánudagur, júní 16, 2008

kvef

Fullkomlega að bugast úr kvefi. Hnerra eins og herforingi en er hætt að vera illt í hálsinum eins og þjáði mig í gær. Vona þar með að þetta verði að mestu rokið úr mér á morgun þegar ég fer suður. Vill hvorki smita vinkonur mínar sem ég vona að ég hitti þessa daga né vera mjög sljó og utan við á fundum sem ég þarf á fara á á miðvikudag og fimmtudag. Er hægt að fá 3 daga kvef eða tekur það alltaf viku?
Hef verið að dunda mér við að búa til skjalalykil sem ég held sé of flókinn og fylgjast með ísbjarnarfréttum. Undir kvöld hafði enginn fattað þetta í útlöndum nema Danirnir. Þetta er kannski ekki frétt nema hann verði drepinn eða e-a svakalegt gerist.

sunnudagur, júní 15, 2008

hahaha
"Petty Officer First Class, Data Processing, sir," she said formally. Jane Edmunds wore spectacles and stood stiffly. She reminded Norman of a librarian.
Crichton, Michael: Sphere (s. 58)

kvef

Urr - slapp við allar meiriháttar pestir og kvef í vetur (sem betur fer) en er núna með kverkaskít og hnerra eins og ég veit ekki hvað. Fann fyrir þessu í gær en er næstum alvörulasin núna. Fór ekkert út í góða veðrið í gær. Sat bara og lék mér í tölvunni - tók smá til og hlustaði á Sue Grafton - T is for Trespass á mp3 spilarnum. Það er besta leiðin til að fá mig til húsmæðrast smá. Þá get ég dundað mér alveg helling og pússað eins og ég veit ekki hvað.

laugardagur, júní 14, 2008

Svoo fallegt

Laugardagsmorgun. Sólin skín, ekki skýhnoðri á himni, fljótið er spegilslétt og veröldin er dásamleg. Keyrði niður á Reyðarfjörð í gær í álíka yndislegu veðri og sá hreindýraflokk á beit alveg við veginn. Þetta er eitt af undrum Austurlands. Já - Reyðarfjörður alveg unaðsfagur um þessar mundir. Gríðarlega státnir og fallegir túlipanar um allan bæ og torgið verulega fallegt. Af hverju er maður aldrei með myndavél!
Ég heimsæki höfuðborgina í vikunni. Kem síðdegis 17. júní og fer aftur á föstudag, þarf að fara á fundi. Fínt að skreppa suður. Gallinn er sá að bróðir minn ástkær verður hér á ferðinni á fimmudaginn og ég verð ekki hér að taka á móti honum.

fimmtudagur, júní 12, 2008

bóklestur

Fékk lánaða bók eftir Kennedy um skjalastjórn sem ég dundaði mér við að lesa um helgina - ekkert mjög skemmtileg en gagnleg. Til að slaka spíttist ég í gegnum Blátt tungl eftir Árna Þórarinsson. Furðulegt - en ég hafði ekki lesið hana áður. Hún kom reyndar út árið sem ég var í Danmörku, það er trúlega ástæðan fyrir því að ég missti af henni. Frábært að finna nýja gamla glæpareyfara. Svo hef ég verið að lesa Neither Here Nor There eftir Bill Bryson. Fantaskemmtileg frásögn af upprifjunarferð hans um Evrópu.

föstudagur, júní 06, 2008

allar einkunnir komnar

Fékk síðustu einkunnina í dag - fékk 9 í lokaverkefninu í Lyklun sem varð til að ég endaði með 8,5. Ég er alveg ofboðslega ánægð - en ég er þarf greinilega að taka mig á í því hvernig ég vísa í heimildir. Það ætti að vera auðvelt að bæta en ég klúðraði því samt. Kate náði í verkefnið mitt skannaði og sendi mér - Takk - takk Kate súpersnillingur og dúx :).

þriðjudagur, júní 03, 2008

grobbin

Var hryllilega þreytt - vaknaði klukkan 5 í morgun af tómu stressi held ég. Tókst ekki að leggja mig þegar ég kom heim. En núna rétt í þessu þegar ég var að kíkja á síðuna mína hjá HÍ fyrir svefninn, sá ég að það voru komnar einkunnir í Upplýsingaleiðum og Vefstjórn - 9 í því fyrra og 8 í því síðara. Fékk algjört adrenalínkikk. Rosalega ánægð - sérstaklega með þá fyrri. :-). Hugsa samt með samúð til K... sem þarf að bíða eftir einkunninni því einhver týndi síðasta vefverkefninu hennar. Hvernig er svoleiðis hægt?

mánudagur, júní 02, 2008

Nýja vinnan

Vaknaði óvart klukkan 5.30 í morgun - vekjaraklukkan var stillt á 6. Tók rútuna klukkan 7 í næsta sveitarfélag og byrjaði í nýju vinnunni fyrir allar aldir. Líst vel á vinnufélagana en verkefnið verður ærið.

sunnudagur, júní 01, 2008

fann nýjan glæpahöfund

Datt yfir nýjan höfund á bóksafninu, hún heitir Karin Slaughter. Mæli með henni - en fann bara tvær bækur á safninu. Hún hefur skrifað miklu fleiri og sú nýjasta er til í Samkaup. Tókst að halda vísakortinu kjurru í veskinu - en það var erfitt.