föstudagur, júní 27, 2008

Fyrsta alvöru fjallganga sumarsins

Séð út Reyðarfjörð, Skrúður sést í fjarska Á fætur í Fjarðabyggð heitir skemmtilegt verkefni sem er gangi núna. Það eru 1 til 2 fjallgöngur á dag og svo kvöldvökur á kvöldin. Ég fór á Svartfjall í dag með mínum heittelskaða og u.þ.b. 26 öðrum. Hafði gleymt góðu gönguskónum fyrir sunnan en átti eina sem ég hef notað sem vetrarskó. Og þeir dugðu svosem alveg í tveggja skóa göngu. Svartfjall er milli Eskifjarðar og Norðfjarðar 1021 m hátt en það var svosem ekkert að marka því við lögðum bílnum á gamla Oddsskarðsveginum og löbbuðum þaðan - ca. 400 metra hækkun. Fengum ljómandi gott veður á leiðinni upp og frábært útsýni á toppnum í byrjun. En þar sem við sátum í spekt og borðuðum nesti og forkólfarnir grófu eftir gestabókinni í fönninni þá brast á með hríð! Grafið eftir gestabókinni Þegar gestabókin var fundin á rúmlega meters dýpi (hún var staðsett með gps-hniti) og búið að kvitta í hana æddum við niður í sólina. Ég fann mér laglegar og langar fannir og renndi mér á rassinum niður - og var ekki sú eina sem notaði þessa aðferð. Buxurnar sem ég keypti í gömlu Skátabúðinni fyrir margt löngu dugðu vel og það sá ekki á þeim eftir þessa meðferð. Þegar niður var komið var tekið á móti hópunum og þeir sem höfðu náð að ganga á tindana fimm undanfarna daga voru verðlaunaðir.
Rúntuðum smá á Eskifirði, keyptum harðfisk hjá að sögn besta harðfiskverkenda í heimi og komum við á nýja kaffihúsinu. Keyptum súkkulaðiköku - heita nýbakaða, algjört lostæti, og kaffi sem mér fannst mega vera sterkara. En bara huggulegt þarna og boðið upp marga rétti og kaffi og aðra drykki í ýmsum útfærslum. Enduðum svo í kvöldmat hjá Helga og Helgu og borðuðum nýveiddan þorsk sem húsbóndinn hefði sjálfur dregið að landi. Haldið að það sé lúxus að búa á Austfjörðum?

Engin ummæli: