sunnudagur, ágúst 29, 2010

Dömu- og berjahelgi

Yndisleg helgi. Var í húsmæðraorlofi hjá Sjöfn, fórum og tíndum ber í Selskóg, horfðum á bíómyndir af leigunni, prjónuðum, spjölluðum og borðuðum. Ekki slæmt. Yndislegt veður - reyndar kaldara í gær - og það kom HAGL um tvöleitið. En hlýtt og yndislegt í dag. Lögurinn spegilssléttur og allt eins og það á að vera.

Kate og Ómar komu við hér í kvöld seint og fengu aðalbláber með rjóma áður en þau héldu áfram suður á Breiðdalsvík. Koma vonandi aftur við á morgun.

fimmtudagur, ágúst 26, 2010

Vinnan og Makedóníuklukkan

Kæliskápurinn kom skríðandi upp tröppurnar í gærkvöldi. Yndisleg sjón. Dagurinn i dag var erfiður. Vann frá frá 8 til 13.15 í skólanum og til 18 á hinum staðnum. Trúi því að fyrsti skóladagurinn sé erfiðastur svo nú er hann liðinn hjá.

Nennti ekki út í búð í dag til að setja eitthvað í kæliskápinn svo það verður fátt um fína drætti í fyrramálið. G-mjólk og tropical Herbalife - hvernig ætli það reynist?

Skreið upp í góða stólinn að loknum vinnudegi og kláraði að lesa Makedóníuklukkuna. Dásamlega skemmtileg bók - mæli með henni.

sunnudagur, ágúst 22, 2010

Helgin

Íbúðin næstum komin í sæmilegt ástand. Eina sem ég sakna verulega er kæliskápur. Hef von um einn slíkan eftir helgi. Mikið að gera í vinnunni, en allt óráðið ennþá. Við Hrafnkell hittum á föstudag nokkra í nefndum sem stýra okkar málum. Við spjölluðum um söfnin og þau fengu að vita hvað við meinum um málin.

Ætlaði skreppa til Akureyrar um helgina og hitta vinkonur en varð að hætta við það því bakið á mér fór í fýlu. Svo sem í lagi. Íbúðin þurfti á mér að halda. Slappaði bara af í gær og las "Bókaránið mikla" - mæli með henni. Og í dag þvoði ég þvott, skúraði gólf og fór í labbitúr í Selsskógi með Sjöfn og Viktoríu. Yndislegt veður og við sáum (og borðuðum) fullt af berjum. Bláber, aðalbláber og dálítið af hrútaberjum. Namm.

þriðjudagur, ágúst 17, 2010

Ormsteiti og Borgarfjörður eystri

Ormsteiti hófst á föstudag - fyrir mig með hverfahátíð í fjólubláa hverfinu. Borðaði þar með ágætum konum, þar af einni sem ég þekkti ágætlega frá því áður og annarri sem ég þekkti vel til. Afi hennar var skólastjórinn minn í barnaskóla og amma hennar kenndi mér í sjö ára bekk. Hef þekkt tvö systkini hennar árum saman - en aldrei séð þessa áður. En ég vissi af henni, því ég frétti þegar ég varð 13 ára að hún hefði orðið 12 ára þann dag. Eftir matinn var farið í skrúðgöngu upp á Vilhjálmsvöll. Þar voru fín skemmtiatriði og mikið sungið. Sleppti áframhaldandi gleði það kvöld.

Fór á Borgarfjörð eystri á laugardag eftir að hafa skoðað sýningar í Sláturhúsinu. Fyndinn vegur - malbikaður á köflum og malarvegur á milli. Kíkti út í Höfn, sá enga lunda en slatta af öðrum fuglum. Drakk kaffi í Álfakaffi og heimsótti Tótu á Ósi sem bauð mér kvöldmat og gistingu sem ég og þáði. Lenti þar í fáránlega fyndnu samkvæmi og hitti mikið af skemmtilegu fólki. Svaf eins og ungi í hreiðri.

Labbaði á sunnudagsmorgni langleiðina yfir í Brúnavík og borðaði mikið af berjum á leiðinni. Glaðasólskin fyrst - og ég húfulaus! Frábært útsýni, sá m.a. Langanesið vel. Þegar ég var að teygja niður við bíl féll á mig einn dropi og stuttu síðar byrjaði að rigna. Borðaði fína súpu á Álfakaffi og kom mér svo heim.

fimmtudagur, ágúst 12, 2010

Egilsstaðir

Hef verið hér í 12 daga. Mikið búið að gerast og það hefði verið snjallt að skrá niður ferilinn jafnóðum - því það gleymist ansi fljótt hvað og hvernig hlutirnir gerast. Búin að fá lánaðan sófa, sófaborð, og tvo klappstóla. Keypti rúm, gardínur, gardínustöng, tölvuborð og stól í Rúmfó á Akureyri. Fjárfestingin með heimsendingarkostnaði er upp undir 100.000 svo það er vel sloppið. Enn vantar mig kæliskáp og svo ætlaði ég að kaupa mér hraðsuðuketil en fann engan girnilegan í Húsasmiðjunni. Leita betur síðar.

Vinnan gengur ágætlega. Flækir svolítið málin að enginn veit hvað verður. Verður flutt, sameinað eða ekki? Vinnufélagar eru frábærir og allir taka mér einstaklega vel.

Veðrið hefur verið mjög gott og spáð upp undir 25 stiga hita hér um helgina. Skemmir eflaust ekki fyrir Ormsteitinu sem byrjar á morgun. Mínu hverfi hefur verið úthlutað fjólubláum lit, þannig að ég get mætt galvösk á hverfahátíð á morgun í mínum lit og þarf ekki að fá neitt lánað ...