þriðjudagur, ágúst 17, 2010

Ormsteiti og Borgarfjörður eystri

Ormsteiti hófst á föstudag - fyrir mig með hverfahátíð í fjólubláa hverfinu. Borðaði þar með ágætum konum, þar af einni sem ég þekkti ágætlega frá því áður og annarri sem ég þekkti vel til. Afi hennar var skólastjórinn minn í barnaskóla og amma hennar kenndi mér í sjö ára bekk. Hef þekkt tvö systkini hennar árum saman - en aldrei séð þessa áður. En ég vissi af henni, því ég frétti þegar ég varð 13 ára að hún hefði orðið 12 ára þann dag. Eftir matinn var farið í skrúðgöngu upp á Vilhjálmsvöll. Þar voru fín skemmtiatriði og mikið sungið. Sleppti áframhaldandi gleði það kvöld.

Fór á Borgarfjörð eystri á laugardag eftir að hafa skoðað sýningar í Sláturhúsinu. Fyndinn vegur - malbikaður á köflum og malarvegur á milli. Kíkti út í Höfn, sá enga lunda en slatta af öðrum fuglum. Drakk kaffi í Álfakaffi og heimsótti Tótu á Ósi sem bauð mér kvöldmat og gistingu sem ég og þáði. Lenti þar í fáránlega fyndnu samkvæmi og hitti mikið af skemmtilegu fólki. Svaf eins og ungi í hreiðri.

Labbaði á sunnudagsmorgni langleiðina yfir í Brúnavík og borðaði mikið af berjum á leiðinni. Glaðasólskin fyrst - og ég húfulaus! Frábært útsýni, sá m.a. Langanesið vel. Þegar ég var að teygja niður við bíl féll á mig einn dropi og stuttu síðar byrjaði að rigna. Borðaði fína súpu á Álfakaffi og kom mér svo heim.

Engin ummæli: