mánudagur, júlí 12, 2010

Vesturland í sumarblíðu

Dásamleg helgi að baki. Brjálaðist í tiltekt á föstudag eftir vinnu. Æddi svo upp í Borgarnes og fékk gistingu í sófanum í herberginu "mínu". Fórum á laugardagsmorgni þrjú í bíltúr um Snæfellsnes. Yndislegt veður og gaman að vera með fólki sem þekkir til í svona bíltúr. Röltum frá Arnarstapa að Hellnum - og Baldur hljóp til baka eftir bílnum meðan við nöfnur nutum blíðunnar á Hellnum.
Vel tekið á móti okkur af húsráðendum á Hellissandi. Þarna voru börn, hundur með kraga og saumaða síðu - sprækur kettlingur og allt skreytt og á fullu á Sandaragleði. Röltum léttklædd um bæinn og Óskar keyrði með okkur á Rif og sýndi bátinn og beitningarskúrinn. Ásamt verðmætum sem renna beint í sjóinn.
Jökullinn skartaði sínu fegursta. Við fórum á ljósmyndasýningu í Hvíta húsinu í Krossavík og enduðum í megafjölskyldugrillveislu. Keyrðum í Borgarnes í kvöldsólinni.
Á sunnudagsmorgni skoðaði ég leikbrúðusafnið sem ég mæli með fyrir alla. Skrapp á Lambastaði og hitti afganginn af ættinni. Þar var líka brjáluð blíða og rjómalogn - 18 stiga hiti sagði Gummi.
Keyrði í bílalest sem náði frá Borgarnesi og í bæinn með Elínu frænku mína innanborðs. Hún hafði beðið um að fá að koma með í Borgarnes - en ákvað að fara lengra þegar hún vissi ég ætlaði beint.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir samveruna um helgina. JS