laugardagur, janúar 24, 2009

Yndislestur - ekki námsbækur!

Í fyrradag fór ég á bókakvöld með gömlum vinkonum. Við höfum ekki hittst í ár - held ég - en það á að breyta því aftur - stefnt að því að hittast einu sinni í mánuði fram á vor. Við röbbuðum bara létt um hvaða bækur við hefðum lesið upp á síðkastið og settum okkur fyrir hvað ætti að lesa fyrir næsta fund. Þetta var óskaplega gaman - reyndar fór seinni helmingur kvöldins í umræður um stjórnmál - það er erfitt að gleyma þeim málum þessa dagana.
En - ég kom heim með Lífstíð eftir Lizu Marklund og Myrká eftir Arnald. Veit ég má ekki vera að því að lesa skáldsögur en ætlaði bara rétt aðeins að líta á Lizu fyrir svefninn - og las til 3!. Hélt áfram þegar ég vaknaði og kláraði. Liza er skrambi skemmtileg - ég er viss um að Annika er með gríðarleg einhverfueinkenni. Svo ætlaði ég að vera rosadugleg að læra - en varð auðvitað að hlusta á blaðamannafund forsætisráðherra og varð svo brugðið að ég gat ekki fest hugann við skólabækur. Fékk mér þar með góða ástæðu til að lesa Arnald og glefsaði hann í mig. Endaði svo með að heimsækja vinahjón í gærkvöld, sat horfði á gamanmyndir með þeim og borðaði nammi.
Í dag druslaðist ég aðeins niður í Þjóðarbókhlöðu og svo á Austurvöll klukkan 3. Fínn fundur og skeleggir og flottir ræðumenn.

Engin ummæli: