fimmtudagur, desember 11, 2008

Ólafía - þáttur á Rás 1

Árið 1976 var ég á leið eitthvað annað og stoppaði í Osló, ætlaði að vera í viku, en var eitthvað aðeins lengur eða 9 ár. En þarna fyrsta veturinn minn fór ég í menntaskóla, sumarhýran dugði stutt svo ég varð að finna mér vinnu og einhver mér vinveittur benti mér á kaffihús á Rodelökku sem vantaði aðstoð. Ég vann þar um veturinn 2 tíma daglega eftir skóla. Fóðraði nokkra kalla sem mest voru fastagestir með kaffi og aðallega brauði með spæleggi og karbonaði ef ég man rétt. Það var ekki fjölbreyttur matseðillinn en gekk alveg minnir mig. Allavega hélt það í mér lífi þann vetur. En það var ekki það sem ég ætlaði að tala um - heldur Mekki - kallinn sem átti kaffihúsið sagði við mig einn daginn þegar hann yfirgaf staðinn. Þegar þú kemur á morgun skaltu koma í gegnum garðinn og skoða styttuna sem er í honum miðjum. Ég spurði af hverju hún væri og hann bara glotti og sagði - farðu bara og gáðu að því.

Ég náttúrlega forvitin og fór og kíkti og varð furðu sleginn þegar ég fann styttu af peysufatakonu sem hét íslensku nafni og svo stóð eitthvað fallegt undir. Þegar ég kom í vinnunna sagði hann mér að þessi kona hefði verið engill í hverfinu þegar hann var barn og hefði gert ótrúlegustu hluti fyrir fátæka. Ég man ekki til að hafa nokkurntíman fyrr heyrt um Ólafíu Jóhannsdóttur. Mörgum árum seinna var ég á Kvinneforum í Ósló og dró nokkrar vinkonur mínar í garðinn og sýndi þeim Ólafíu. Þær þekktu hana heldur ekki. En núna er búið að skrifa um hana bók eða bækur og leikrit. Henni er gert hærra undir höfði. Styttan - eða brjóstmyndin af henni í HÍ er orðin sýnilege en styttan í Ósló var færð úr friðsæla garðinum við Helgesensgötu þar sem fáir sáu hana yfir á subbulegt torg sem dúfurnar skíta á hana.

Það var þáttur um Ólafíu á Rás 1 í kvöld - endurtekinn frá 2003. - Fínn þáttur - þess vegna komu þessar minningar upp.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góðan daginn.
Gaman að þessu.
Kveðja, JóSk.