laugardagur, nóvember 22, 2008

Tíðnitöflur, mótmæli og kjallaraflóð

Gríðarlegt annríki í dag. Komin niður í Háskóla klukkan 10. Vann með Kate við tíðnitöflur og annað bráðskemmtilegt til 14.30. Skokkaði þá niður á Austurvöll. Þar var lúðarasveit, ættjarðarlög, mjög beitt og flott lögfræðinemastelpa sem hélt þrumurræðu og fékk alla með sér, Gerður, sem einu sinni var kennd við skemmtilegustu fatabúðina í bænum, kom með athyglisverða ræðu og sagnfræðinemi kláraði dæmið. Og Hörður býr til ramma utan um þetta allt. Alveg ótrúlegt - og ég var mest hissa á að það virtist vera fleira fólk núna en síðast.

Svo var Jón Sigurðsson hjúpaður bleikum klæðum og risaborði með IMF-skrímslið að gleypa Island hengdur upp á eitt húsið. Við erum alveg að ná þessu hvernig á að mótmæla held ég. Ánægð með það. Ég skundaði svo aftur upp í skóla til að klára verkefnið en einhver hluti skrapp upp á löggustöð til að mótmæla handtöku mótmælenda í gær.

Svo þar sem við vorum að klára verkefnið hringdi farsíminn minn sem yfirleitt er til friðs og mér var tilkynnt að það væri flóð í kjallaranum. Fnykurinn var ólýsanlegur þegar ég kom heim. Menn að dæla upp og allt á fullu. Fulltrúi frá Sjóvá mætti - það er húseigendatryggingin og innbústrygging hjá sumum - en við hin sem erum annarsstaðar þurfum að hafa meira fyrir hlutunum. Ekki komu þeir frá VÍS eða Verði. Urr! Sem betur fer var lítið á gólfinu í minni geymslu - en lyktin - jæks.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl frænka.

Það var gott að ekkert skemmdist hjá þér í flóðinu.
Hafðu það gott.

JóSk