laugardagur, október 25, 2008

Mótmæli?

Íslendingar eru alveg einstaklega undarleg tegund. Þarna lufsumst við nokkur niður í bæ til að mótmæla - já meira að segja ég. Mætti niður á Austurvöll klukkan 15, þar var maður í pontu mjög sár yfir að einhver annar hefði auglýst mótmælagöngu klukkan 16. En það var sungið og Einar Már hélt þrusugóða ræðu og Guðmundur Gunnars aðra. Við mótmælendurnir stóðum þarna stillt og prúð og klöppuðum á viðeigandi stöðum. Svo var korters hlé - ég skrapp inn í Pennann og hnusaði af öllum bókunum sem mig langar að lesa og fór svo aftur út af Austurvöll og kom mér í gönguna og rölti upp að Ráðherrabústað. Það var líka afskaplega prúð ganga - reyndar var bara einhver bílstjóri með óspektir og flautaði óspart því hann komst ekkert áfram.

Við ráðherrabústaðinn var vænn hópur - m.a. svartir fánar og ég held einn rauður. Örstutt ræðuhöld og sum beittari en önnur og Arnþrúði Karlsdóttur tókst að koma smá lífi í fólki. Svo vöppuðum við bara heim sæl og glöð og þykjumst hafa verið úti og mótmælt. Ekki misskilja mig - ég mæli ekki með að við förum og brjótum glugga og hlöðum götuvígi. En ég meina - þetta er það tamdasta sem ég hef nokkurn tímann upplifað! Það heyrir enginn í okkur ef við höldum kjafti. Það er ekki nóg að bara klappa ef einhver segir eitthvað.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég held að það veiti ekki af mótmælum á klukkutíma fresti þessa dagana.

Kærar kveðjur, Jóhanna Sflain

Til að muna .. sagði...

Satt - en láta heyra í okkur!
Ég segi nú bara guði sé lof fyrir anarkistana.