sunnudagur, desember 26, 2010

Jólakveðjan

Tveim mánuðum eftir síðasta blogg - þá kemur jólabloggið. Borðaði mér til óbóta hjá Auði. Hún er alveg ótrúlega frábær kokkur og elskar að elda og gefa fólki að borða. Mikið er ég heppin. Fékk lánaðan risastóra (finnst mér) Grand Vitöru til að komast á milli staða á aðfangadag og jóladag. Varð að fá lánaðan því strætisvagnar aka ekki á höfuðborgarsvæðinu á jóladag. Undarlegt fyrirkomuleg finnst mér. En mikið er erfitt skipta frá pínulitlum bíl yfir í stóran. Ég hafði enga tilfinningu fyrir hvað bíllinn tók stórt pláss! Jólaknús til minna örfáu lesenda.

sunnudagur, október 24, 2010

Sláturtíð

Kuldi og hálka úti - en gríðarfallegt eins og venjulega. Var boðið í hádegismat á Hótel Héraði í dag. Flott og gott hlaðborð, ennþá södd og klukkan er að vera 7, og góður félagsskapur. Fór svo á sýningu í Sláturhúsinu - sýningin heitir Sláturtíð og er helguð sauðkindinni og afurðunum ...
Sko nafna - ég er ekki alveg hætt að blogga - gleymi því bara svolítið ;)

sunnudagur, ágúst 29, 2010

Dömu- og berjahelgi

Yndisleg helgi. Var í húsmæðraorlofi hjá Sjöfn, fórum og tíndum ber í Selskóg, horfðum á bíómyndir af leigunni, prjónuðum, spjölluðum og borðuðum. Ekki slæmt. Yndislegt veður - reyndar kaldara í gær - og það kom HAGL um tvöleitið. En hlýtt og yndislegt í dag. Lögurinn spegilssléttur og allt eins og það á að vera.

Kate og Ómar komu við hér í kvöld seint og fengu aðalbláber með rjóma áður en þau héldu áfram suður á Breiðdalsvík. Koma vonandi aftur við á morgun.

fimmtudagur, ágúst 26, 2010

Vinnan og Makedóníuklukkan

Kæliskápurinn kom skríðandi upp tröppurnar í gærkvöldi. Yndisleg sjón. Dagurinn i dag var erfiður. Vann frá frá 8 til 13.15 í skólanum og til 18 á hinum staðnum. Trúi því að fyrsti skóladagurinn sé erfiðastur svo nú er hann liðinn hjá.

Nennti ekki út í búð í dag til að setja eitthvað í kæliskápinn svo það verður fátt um fína drætti í fyrramálið. G-mjólk og tropical Herbalife - hvernig ætli það reynist?

Skreið upp í góða stólinn að loknum vinnudegi og kláraði að lesa Makedóníuklukkuna. Dásamlega skemmtileg bók - mæli með henni.

sunnudagur, ágúst 22, 2010

Helgin

Íbúðin næstum komin í sæmilegt ástand. Eina sem ég sakna verulega er kæliskápur. Hef von um einn slíkan eftir helgi. Mikið að gera í vinnunni, en allt óráðið ennþá. Við Hrafnkell hittum á föstudag nokkra í nefndum sem stýra okkar málum. Við spjölluðum um söfnin og þau fengu að vita hvað við meinum um málin.

Ætlaði skreppa til Akureyrar um helgina og hitta vinkonur en varð að hætta við það því bakið á mér fór í fýlu. Svo sem í lagi. Íbúðin þurfti á mér að halda. Slappaði bara af í gær og las "Bókaránið mikla" - mæli með henni. Og í dag þvoði ég þvott, skúraði gólf og fór í labbitúr í Selsskógi með Sjöfn og Viktoríu. Yndislegt veður og við sáum (og borðuðum) fullt af berjum. Bláber, aðalbláber og dálítið af hrútaberjum. Namm.

þriðjudagur, ágúst 17, 2010

Ormsteiti og Borgarfjörður eystri

Ormsteiti hófst á föstudag - fyrir mig með hverfahátíð í fjólubláa hverfinu. Borðaði þar með ágætum konum, þar af einni sem ég þekkti ágætlega frá því áður og annarri sem ég þekkti vel til. Afi hennar var skólastjórinn minn í barnaskóla og amma hennar kenndi mér í sjö ára bekk. Hef þekkt tvö systkini hennar árum saman - en aldrei séð þessa áður. En ég vissi af henni, því ég frétti þegar ég varð 13 ára að hún hefði orðið 12 ára þann dag. Eftir matinn var farið í skrúðgöngu upp á Vilhjálmsvöll. Þar voru fín skemmtiatriði og mikið sungið. Sleppti áframhaldandi gleði það kvöld.

Fór á Borgarfjörð eystri á laugardag eftir að hafa skoðað sýningar í Sláturhúsinu. Fyndinn vegur - malbikaður á köflum og malarvegur á milli. Kíkti út í Höfn, sá enga lunda en slatta af öðrum fuglum. Drakk kaffi í Álfakaffi og heimsótti Tótu á Ósi sem bauð mér kvöldmat og gistingu sem ég og þáði. Lenti þar í fáránlega fyndnu samkvæmi og hitti mikið af skemmtilegu fólki. Svaf eins og ungi í hreiðri.

Labbaði á sunnudagsmorgni langleiðina yfir í Brúnavík og borðaði mikið af berjum á leiðinni. Glaðasólskin fyrst - og ég húfulaus! Frábært útsýni, sá m.a. Langanesið vel. Þegar ég var að teygja niður við bíl féll á mig einn dropi og stuttu síðar byrjaði að rigna. Borðaði fína súpu á Álfakaffi og kom mér svo heim.

fimmtudagur, ágúst 12, 2010

Egilsstaðir

Hef verið hér í 12 daga. Mikið búið að gerast og það hefði verið snjallt að skrá niður ferilinn jafnóðum - því það gleymist ansi fljótt hvað og hvernig hlutirnir gerast. Búin að fá lánaðan sófa, sófaborð, og tvo klappstóla. Keypti rúm, gardínur, gardínustöng, tölvuborð og stól í Rúmfó á Akureyri. Fjárfestingin með heimsendingarkostnaði er upp undir 100.000 svo það er vel sloppið. Enn vantar mig kæliskáp og svo ætlaði ég að kaupa mér hraðsuðuketil en fann engan girnilegan í Húsasmiðjunni. Leita betur síðar.

Vinnan gengur ágætlega. Flækir svolítið málin að enginn veit hvað verður. Verður flutt, sameinað eða ekki? Vinnufélagar eru frábærir og allir taka mér einstaklega vel.

Veðrið hefur verið mjög gott og spáð upp undir 25 stiga hita hér um helgina. Skemmir eflaust ekki fyrir Ormsteitinu sem byrjar á morgun. Mínu hverfi hefur verið úthlutað fjólubláum lit, þannig að ég get mætt galvösk á hverfahátíð á morgun í mínum lit og þarf ekki að fá neitt lánað ...

föstudagur, júlí 16, 2010

Í fríi?

Síðasti vinnudagurinn á Safninu í gær. Hálfur mánuður í næsta verkefni. Mikið að gera á stuttum tíma - gæti ég fengið súperskipulagshæfileika?

Hitti Hrefnu og Kiddý í gær - sáum lítið Bryndísarklón í vagni fyrir utan Sólon. Dásamlegur dagur í Reykjavík.

mánudagur, júlí 12, 2010

Esjurölt í maí

Frá 17 maí 2010

Vesturland í sumarblíðu

Dásamleg helgi að baki. Brjálaðist í tiltekt á föstudag eftir vinnu. Æddi svo upp í Borgarnes og fékk gistingu í sófanum í herberginu "mínu". Fórum á laugardagsmorgni þrjú í bíltúr um Snæfellsnes. Yndislegt veður og gaman að vera með fólki sem þekkir til í svona bíltúr. Röltum frá Arnarstapa að Hellnum - og Baldur hljóp til baka eftir bílnum meðan við nöfnur nutum blíðunnar á Hellnum.
Vel tekið á móti okkur af húsráðendum á Hellissandi. Þarna voru börn, hundur með kraga og saumaða síðu - sprækur kettlingur og allt skreytt og á fullu á Sandaragleði. Röltum léttklædd um bæinn og Óskar keyrði með okkur á Rif og sýndi bátinn og beitningarskúrinn. Ásamt verðmætum sem renna beint í sjóinn.
Jökullinn skartaði sínu fegursta. Við fórum á ljósmyndasýningu í Hvíta húsinu í Krossavík og enduðum í megafjölskyldugrillveislu. Keyrðum í Borgarnes í kvöldsólinni.
Á sunnudagsmorgni skoðaði ég leikbrúðusafnið sem ég mæli með fyrir alla. Skrapp á Lambastaði og hitti afganginn af ættinni. Þar var líka brjáluð blíða og rjómalogn - 18 stiga hiti sagði Gummi.
Keyrði í bílalest sem náði frá Borgarnesi og í bæinn með Elínu frænku mína innanborðs. Hún hafði beðið um að fá að koma með í Borgarnes - en ákvað að fara lengra þegar hún vissi ég ætlaði beint.

laugardagur, júlí 03, 2010

Þórsmörkin


Fór í dagsferð í Þórsmörk með Auði í dag. Tókum rútu á BSÍ klukkan 8. Skiptum um rútu og bílstjóra á Hvolsvelli. Stoppuðum við Seljalandsfoss og við Gígjökul. Fáránleg breyting á einum stað. Keyrðum fram á jeppa sem hafði brotið undan sér í einum læknum á leiðinni inn. Krossá rosalega leiðinleg. Morgunferðin úr Húsadal hafði víst verið skelfileg. En grafan var búin að vera að laga síðan og vörubíll að finna góð vöð. Fórum yfir í fylgd með vörubílnum.
Skiptum um bíl og bílstjóra í Húsadal og fórum inn í Bása. Þar tók Ingi á móti okkur og tveir flugbjörgunarstrákar sem eru þarna við gæslu. Okkur fannst við komnar heim þegar við komum í Bása - tala nú ekki um þegar maður kannast við skálavörðinn. Borðuðum og vöppuðum blómum skrýddan Litla Básahring. Fáir á tjaldstæðinu. Vorum svo keyrðar yfir í Langadal og skokkuðum yfir í Húsadal og vorum þar á sama tíma og rútan. Fréttum af jeppa sem hafði farið á flot í Krossá og stórskemmst. En en enginn skaði á fólki.
Mættum nokkrum bílum á leiðinni inn í Mörk og bíllinn sem hafði verið stopp í miðjum læknum var kominn upp á bakkann og búið að rífa undan honum vinstra framhjólið. Frábær dagur og minnir mann á að það er nauðsynlegt að heimsækja Þórsmörk reglulega. Við vorum einu íslendingarnir í rútunni og fengum prinsessumeðhöndlun af bílstjórnum. Já - og Ingi spurði hverkonar vitleysa þetta væri eiginlega að koma svona og fara heim á laugardagssíðdegi - og það fyrstu helgina í júlí! :) Veðrið var frábært, mest þurrt þar sem við vorum en smávæta síðasta spölinn í Húsadal. En greinileg hellidemba skammt frá.

föstudagur, júlí 02, 2010

Öðruvísi kvennakrimmi

Hólmfríður í bókasafninu rétti mér um daginn nýlega bók, Stelpurnar mínar eftir Susanne Staun. Þekkti ekki nafnið - og þótti byrjunin skrýtin - en - bráðfyndin og skemmtileg bók. Konan skrifar um Fanny Fiske og vinkonur hennar sem eru stórskrýtnar og skemmtilegar og leysa glæpamál á óhefðbundinn hátt. Ætla að kanna hvort ekki finnist fleiri bækur um hana á söfnunum hérna.

fimmtudagur, júlí 01, 2010

Bílamál og bókhald


Var að dunda mér við heimilisbókhaldið í kvöld. Eyddi meira í júní en aðra mánuði. En það var svosem ástæða fyrir því. Lét tékka á bremsunum í Litla Rauð og það var skipt um bremsuborða og diskana líka. Ágætt að muna að slíkt var gert í júní 2010.
Og svo sá ég Skugga minn í gær við bókasafnið. Það er svo fyndið - ég þekki hann hann á löngu færi. Hann er farinn að rygða svolítið blessaður - en alltaf jafn státinn. - Það mætti þó alveg bóna hann.

sunnudagur, júní 27, 2010

Dekur á Suðurlandi


Tók helgardekur á Suðurlandi í gær. Hitti Kötu í Hveragerði og vappaði um blómabæinn. Dásamlegt veður, þó það væri mikil aska í lofti, og hellingur af fólki á ferli. Skoðaði triljón sölubása og sá margt fallegt, prufaði m.a. gríðarþægilegan nuddpúða. Fórum á Selfoss. Keyptum núðlur á ágætum veitingatað og fórum með heim til Kötu þar sem ég vingaðist við köttinn hennar sem ég hafði ekki hitt fyrr. Kíktum á fornbílana á tjaldstæðinu. Margir fínir en vantaði uppáhaldsbílinn minn. Fórum svo á Eyrarbakka á jónsmessubálið í fjörunni. Þar var líka gríðarmikið af fólki.
Á sunnudag mættum við á Heilsustofnun NFLÍ - ég hafði fengið gjafakort í sund og tvo fyrir einn í mat. Hittum Eddu sem er á hælinu - og svo kom það fyndna sem sýnir fram að það borgar sig fyrir mig að skrásetja allt. Sundgleraugun mín eru ónýt - ég mundi ég henti þeim nýlega - í innilaug með söltu vatni. Og þar sem ég synti í söltu vatni í dásamlegu útilauginni á Heilsuhælinu - þá braut ég heilann um hvar ég hefði nýlega verið í söltu vatni. Og mundi ekki - mundi ég hafði verið með Auði - og í innlaug. Það var ekki fyrr en hálftíma seinna sem það rifjaðist upp yfir mér að það hefði verið í Vestmannaeyjum og ekki fyrir löngu síðan! Í hádeginu borðuðum við rosagóð eggaldin með steiktum kartöflum og sætum kartöflum og helling af öðru grænmeti. Vöppuðum um bæinn, hitti gamla rope yoga vinkonu sem var í gifsi, - og keypti púðann. Settum svo punktinn yfir i-ið með að fá okkur te og köku á hælinu.
Skutlaði Kötu heim og keyrði svo í halarófu heim í Kópó. Held röðin hafi verið nokkuð samfelld frá Grímsnesafleggjara og í bæinn. En gekk alveg þokkalega jafnt.

þriðjudagur, júní 22, 2010

Austurland í blíðskaparveðri



Fór niður í Hróarstungur með Guðrúnu og Pétri á sunnudag. Skoðaði fallega kirkju og fann gamlan traktor sem ég varð að máta.

mánudagur, maí 31, 2010

handbók Epiktets

Heyrði einhverntíman minnst á bók - handbók Epiktets sem dr. Broddi Jóhannesson þýddi, skrifaði það hjá mér og fann svo bókina á bókasafninu um daginn. Hún heitir "Hver er sinnar gæfu smiður" er er vel þess virði að glugga í. Þar segir m.a. í kafla 5.
"Ekki eru það atburðirnir sjálfir, sem áhyggjunum valda, heldur horf manna við þeim. Dauðinn er t.d. ekki skelfilegur, ella hefði hann einnig komið Sókratesi þannig fyrir sjónir. Skelfileg er einungis sú skoðun, að dauðinn sé skelfilegur. Ef eitthvað hamlar oss, þá skyldum vér engan annan sakfella en oss sjálf, þ.e.a.s. viðhorf sjálfra vorra. Vanþroska maður þekkist af því, að hann sakar aðra um, ef honum farnast miður. Sá sem áfellist sjálfan sig, er kominn nokkuð áleiðis, en sannmenntaður maður ber hvorki sjálfan sig né aðra sökum."
Mikið af gullkornum í þessari bók og á góðri íslensku :)

sunnudagur, maí 16, 2010

Bókmennta- og kartöflubökufélagið

Datt yfir þessa bók á bókasafninu í síðustu viku. Byrjað að lesa hana í gær og kláraði í morgun. Mæli með henni. Hún er verulega skemmtileg - en ég táraðist líka yfir henni. Langt síðan það hefur gerst.
Er öll að braggast - ætla út í stuttan labbitúr í sólskininu. Er með 30 daga áskorun fyrir sjálfa mig. Labba í hálftíma á dag og hugleiða í 25 mínútur. Þetta verður fyrsti í labbi - og annar í hugleiðslu.

laugardagur, maí 15, 2010

Difficult tasks ahead.

Tékkaði á tarotinu á Fésinu í dag og fékk þetta lesningu - lagði ekki í að setja hana inn þar - en fannst óvitlaust að geyma hana hér - svona til að muna:

Recent Past
Strength
Strength and fortitude. From energy follows thought and action. Power that is respected. Quiet control of oneself and others. Need to bring strength from deep within and continue on in face of adversity. Strength of mind as well as body is needed. Difficult tasks ahead. Focus on all goals at once. Control of all resources at one's disposal. Ability to do what is needed when time is right. Knowing oneself and one's gifts as well as one's weaknesses.


Current Situation
Queen of Cups Reversed
A woman who has been hurt in love. Fear of deep feelings of commitment and attachment. An emotionally immature woman. A woman who prefers to remain alone without encumbrances of a relationship. Desire to set out on a different course without romantic attachment. Deep feelings of love not possible at the present time. Selfishness. Abandonment. A deep hurt from a past relationship.

Future Influences
The Star
Hope and inspiration. Realization of dreams and goals possible now. Whatever venture you are involved with, your lucky stars are with you. Positive energies flowing freely into your life. Make the most of the now. Heavenly influences surrounding you. Blessings are flowing freely like water. Abundance and spirit present. Bright promises. The presence of the Holy Spirit is with you. A good time to begin a new project or new relationship as it has carries blessing with it.

föstudagur, maí 14, 2010

Lasin og leiðist rosalega

Einhversstaðar sá ég um daginn að það væri hollt að leiðast. Ég reyni að hugga mig við það. Þriðji dagurinn sem ég er inni og ekki séð hræðu. Takmarkað sem maður getur dundað sér við - og sjónvarpið - já - við skulum ekki minnast á þá hörmung. Ekkert gaman að vera lasin - og vanta hæfilega afþreyingu.

miðvikudagur, maí 12, 2010

Lasin heima og spennandi símtöl

Lasin í dag, hósta harka og á voða bágt. Sérstaklega af því að bakið á mér bilaði í einu hóstakastinu í gær. Ótrúlegt afrek.
Fékk símtal í morgun að austan um að mér væri boðin staðan og fimm mínútum eftir það samtal hrindi síminn aftur og mér boðið að koma í atvinnuviðtal - á öðrum stað. Skemmtilegt - annað hvort í ökla eða eyra.
Móðir mín hefði átt afmæli í dag og Siggi vinur minn í Bergen á líka þennan dag. Best að demba sér í að senda honum tölvupóst. Fyrst ég sit svona við tölvuna.

þriðjudagur, maí 11, 2010

Flögrað heim

Slapp heim í gær. Fékk nokkur sms um morguninn (fyrir klukkan 7) um að athugað yrði með flug seinna sama dag. Gleðitíðindin fékk ég rúmlega 10 um það að ég mætti mæta út á flugvöll klukkan 13. Tvær vélar lentu upp úr 13.30 og ég fékk far með annarri sem fór í loftið kl. 14. Flugið var fínt, gott skyggni. Sá gosmökkimn vel þó ég sæti við gangveginn. Jafnfallegt veður í Rvk og á Egilsstöðum en verulega mun hlýrra ...
Fór í morgun á ráðstefnu í Salnum "Láttu ekki þitt eftir liggja", þar var fjallað um skýrsluna og skjalastjórn. Fín ráðstefna.
Er hundkvefuð og hóstaði í mig bakverk. Undarlegt!

sunnudagur, maí 09, 2010

Öskuteppt

Eldsnemma í morgun skrækti gemsinn og mér var tjáð með smsi að það yrði ekkert flogið í dag. Næsta tékk 6.30 í fyrramálið! Þetta verður æsispennandi. Kate heldur því fram að þetta sé með ráðum gert. Mér verði ekkert sleppt suður. En ég verð að komast heim á morgun. Must. Annars er yndislegt að vera hér hjá Sjöfn og Mumma og barnabörnin þeirra skemma ekki félagsskapinn.

laugardagur, maí 08, 2010

Egilsstaðir eru æði

Sat og horfði á hreindýrahjörð út um gluggann í hosilóinu hjá Sjöfn og Mumma í dag. Sól og blíða og unaðslega fallegt. Fórum og skoðuðum sýninguna í Sláturhúsinu. Verk eftir Kjuregej Alexöndru og nemendur - sum alveg stórkostleg. Uppi á lofti voru meðal annars föt eftir Ástu. Langaði næstum í þau öll. Labbitúr um plássið síðdegið. Þá var farið að kólna. Spennandi að vita hvort það verður flogið á morgun. Öskustopp í dag.

föstudagur, maí 07, 2010

Rafmagnið

Sjöfn var að dásama rafkerfið hér eystra - sagði það væri orðið miklu stabilla og ef eitthvað gerðist væri hægt kippa því í liðinn í gegnum tölvuna. Við gleymdum að banka í borðið. Rafmagnið blikkaði - og bóndi hennar er núna á fullu út um allar sveitir að redda málunum. Hef ég svona áhrif kannski? Ekkert um þetta á fréttamiðlunum.

þriðjudagur, maí 04, 2010

Allt að gerast

Allt að verða vitlaust - lítur út fyrir að ég sé á leiðinni austur þrátt fyrir allt. Kítlar mann svolítið þegar maður er "headhunted". Skrepp þangað um helgina og lít á aðstæður.
Pósturinn kom í dag með pappíra frá lækninum upp á sjúkraþjálfun, pantaði tíma og kemst að Gáska á mánudag. Svo fékk ég með sömu póstsendingu disk með holosync-hugleiðslu. Búin að hlusta. Virðist vera mjög gott.

sunnudagur, apríl 25, 2010

Búkonulegt frænkukríli

 

Fékk ánægjuna af að fylgja frænkukrílinu á leikvöllinn á sumardaginn fyrsta. Hún undi sér þar lengi í sólskininu.
Posted by Picasa

þriðjudagur, apríl 06, 2010

Mikill léttir

Þrekraunin ógurlega búin. Fékk góða hjálp við að klára skattskýrslurnar. Þetta er ekkert flókið þegar fólk veit hvað það er að gera. En næsta ár verður þetta ekkert mál trúi ég - þá verður það bara að ýta á send.

Gaman í vinnunni í dag. Fékk að skrá eitt einkaskjalasafn - mikið á norsku - það skemmir ekki.

mánudagur, apríl 05, 2010

Nýja hjólið

Vígði nýja hjólið í gær - fór 10 km - kom við miðja leið og fékk að smakka páskaegg og skoða gamlar myndir frá Ósló. Afskaplega vorum við ung og mjó :-). Fór líka í smáhjólatúr í dag en í hina áttina - upp brekkuna ógurlegu. Hjólið réði við brekkuna en mér keðjan fór af þegar ég reyndi að setja gír. Fljótlegt að redda því. Bara 2 km upp til Steina og Siggu svo túrinn var stuttur. Fékk kaffi og fiktaði aðeins í tölvunni. Skítkalt á leiðinni heim en fór samt í Elliðaárdalsvapp með Eddu á eftir. Allt í góðu nema skattskýrslur eru enn ófrágengnar. Fresturinn rennur út á morgun :(

laugardagur, febrúar 27, 2010

MLIS

Dásamlegur dagur. Útskrifaðist með meistaragráðu í bókasafns- og upplýsingafræði í dag. Gaman á útskriftinni í Háskólabíó. Skemmtilegast reyndar þegar Háskólakórinn mætti ekki og einn kennaranna var settur í að leiða fjöldasöng! Frábærlega afgreitt af kynninum sem stjórnaði samkomunni og vakti kátínu í salnum. Fékk góða gesti í heimsókn, misjafnlega snjóbarða eftir að hafa brotist í gegnum ófærðina (sumir treystu sér ekki ...) Ég held ég eigi bestu fjölskyldu og vini sem hugsast getur. - Og það komast allavega fyrir 20 gestir í stofunni minni - hver skyldi hafa trúað því!

mánudagur, febrúar 22, 2010

Góukaffi

Góukaffi hjá Gunna Bald í morgun. Hann gerir alltaf vel við konurnar sínar. Gaman að fara og hitta gamla vinnufélaga. Það er svo skrítið, þetta er eins og fjölskylduboð - maður sér fullt af fólk sem manni þykir vænt um en hefur ekki séð lengi.

föstudagur, febrúar 19, 2010

Menningarhellingur

Skemmtilegir dagar. Er búin að lesa Enn er morgunn eftir Böðvar Guðmundsson. Athyglisverð bók sem gaman er að lesa. Áhugavert að lesa um þessa tíma í Reykjavík og Þýskalandi. Var á skemmtilegu námskeiði hjá Upplýsingu - um upplýsingalæsi. Lærði m.a. um samskiptafefinn Diigo. Góður að geyma vefbókamerki og allaveganna upplýsingar - og ég held frábær fyrir kennara. Og svo var talað mikið um One note "glósubókina". Kannski svolítið seint fyrir mig því ég er að útskrifast um næstu helgi. Var í gærkvöld í bókaklúbbi með Óslóarsystrum mínum og fór með Siggu í Þjóðleikhúsið í kvöld og sá Gerplu. Fínt - fínt leikhús fyrir augað. Sumar lausnirnar voru alveg dásamlegar. En leikritið hefði þurft lengri tíma og meiri textavinnslu.

þriðjudagur, febrúar 16, 2010

Afmæli

Bloggið mitt raknað úr rotinu - í bili allavega. Flottur afmælisdagur þó ég hafi ekki fengið atvinnutilboð eins og ég óskaði mér í afmælisgjöf. Qi gong í hádeginu. Súpa og labbitúr með vinkonu. Bíó með annarri um kvöldið. Reyndar þurftum við að bíða í 57 mínútur eftir að myndin byrjaði, Percy Jackson og eldingaþjófurinn, það var einhver bilun. Myndin var varla biðarinnar virði - en endirinn bjargaði miklu (bláendinn). En rúsínan í pylsuendanum - og toppurinn á deginum voru norðurljósin sem skreyttu himininn á heimleiðinni. Algjörlega fullkomlega dásamleg.