miðvikudagur, júlí 30, 2008

veðurblogg

Enn og aftur búið að pakka Egilsstöðum inn í bómull. Ég sá þokuna læðast inn Löginn fyrir svona klukkutíma og núna hefur hún pakkað blokkinni minni inn. Svona var þetta líka í morgun. Það skrítna var að það var þoka hér en sól og blankalogn á Reyðarfirði. Þetta mun vera sjaldgæft. En það var líka sól og blíða hér uppfrá þegar ég kom heim um fimmleitið. Kíkti aðeins við í Safnahúsinu á leiðinni heim. Þar var hellingur af fólki. Þorði ekki upp í bókasafn. Má ekki láta freistast af skáldsögum. Núna er það bara fagbækur á borðinu.
Búin að plata einn af köllunum niður frá að taka mig með á skak. Það verður spennandi að vita hvernig það gengur.

mánudagur, júlí 28, 2008

grobb

Verð að grobba mig svolítið - ég fór með bílinn minn út á þvottaplan og ÞVOÐI hann. Ekki vanþörf á því reyndar. Hann var rykugur og með slatta af dauðum flugum eftir Breiðdalstúrinn (öhöm). - Ég vissi það en í dag hafði bæst við aukaástæða. Hafði greinilega flogið krummi með berjaskitu yfir hann! Svo nú veit maður að berin eru orðin æt. Eftir bílaþvottinn fór ég smáhring upp í Selskógi. Dásamlegt veður en sá ekki berjaörðu á þeim hring.

sunnudagur, júlí 27, 2008

Blíða og Dewey

Brakandi blíða hér á Egilsstöðum. En ég vappaði bara út í búð. Sleit mig frá DDC og djúpum pælingum um hvort ég ætti að flokka franskar smásögur á þýsku sem þýskar eða franskar og hvort ég ætti að gera eitthvað meira. Meina það - ég kunni þetta upp á 9,8 fyrir áramót!
Hellingur af túristum hér bæði innlendum og útlendum - hitti hálfberan hlaupara á stígnum - þ.e. bara í hlaupaskóm og stuttbuxum :). Mætti þrem konum við Bónus - hvar af ein stundi þungan út af hitanum. Ég meina það - það er ekki SVO hlýtt að maður þurfi að stynja.
Vona bara að grænmetið mitt og salatið úti á svölum fari að braggast, það er mun aumingjalegra en í fyrra á sama tíma.

föstudagur, júlí 25, 2008

Fann nýjan höfund

Kippti þessari með mér á bókasafninu síðast - Kate Thompson: Going Down. Ágætilega skemmtileg bók og góð afþreying. Skrifar m.a. um köfun og Jamaíka. Svo er auðvitað slatti af ást, kynlífi og misskilningi svona til að krydda.

miðvikudagur, júlí 23, 2008

Harmur á fjöllum


Þessir verða graslömb það sem eftir lifir sumars.

laugardagur, júlí 19, 2008

dýrðardagur

Nánast fullkomin Egilsstaðadagur í dag. Dásamlegt veður. Skýjafarið dásamlegt. Hér voru tvær smáflugvélar og léku sér eftir kvöldmat. Tveir spíttbatar geystust upp Löginn og tveir mun hægari á eftir. Annar stoppaði reyndar og varð að snúa aftur. Ég fór í hjólatúr síðdegis og hjólaði niður með ánni og tók fullt af blómamyndum. Gáði að bíl sem við sáum í morgun þegar við fórum smá rúnt um bæinn. Sá hafði ekki náð beygju og oltið niður bratta brekku. Hef ekki séð neitt um það í fréttum í dag. Á morgun förum við í útilegu með Birgi og Ollu og smásneplunum. Þau voru á ættarmóti niður á Borgarfirði. Kannski má líka plata Björninn á tónleika í Skóginum. Það er reyndar engin Eivör eins og í fyrra en Rúni Júl og Bjartmar geta verið flottir.



föstudagur, júlí 18, 2008

Kalt er annars blóð

Fór á bókasafnið í gær og skilaði stöðlunum sem ég hafði fengið lánaða í millisafnaláni. Freistaðist til að taka tvær skáldsögur. Önnur þeirra er Kalt er annars blóð eftir Þórunni Erlu-Valdimarsdóttur. Hafði gaman af henni. Hún notar fyrirmyndir úr Íslendingasögunum og setur í Reykjavík samtímans. Það eru náttúrlega morð og blóð og lausn á gátunni í lokinn. En mér finnst alltaf svolítill galli þegar mér finnst eins og höfundi þyki ekkert vænt um söguhetjurnar. En - ég sleppti bókinni ekki fyrr en hún var búin - og leit hvorki á flokkun né skjalastjórn í gær.

Fengum kynningu á OneSystems í vinnunni í dag. Líst vel á kerfið - vona að ég fái að vita meira um það fljótlega.

miðvikudagur, júlí 16, 2008

hvaða borg?

Dunda mér við að finna út um hvað ég eigi að skrifa um vinnureglur í kringum málaskrá og bréfalykla og rafrænt skjalakerfi - þá er voða freistandi að kíkja aðeins á aðra hluti á vefnum. Datt t.d. um þetta.



You Are Austin



A little bit country, a little bit rock and roll.

You're totally weird and very proud of it.

Artistic and freaky, you still seem to fit in... in your own strange way.



Famous Austin residents: Lance Armstrong, Sandra Bullock, Andy Roddick


Held kannski það hafi eitthvað misfarist í könnuninni.

þriðjudagur, júlí 15, 2008

moldrok og flokkun

Það hvín og blæs - skýin eru ótrúlega flott - en verst að vita að þau eru full af mold. Í vinnunni í dag var talað um að rigningin niðri á Fjörðum í gær hefði verið brún og bílarnir vel moldugir eftir steypibaðið. Svalirnar mínar eru líka fullar af sandi. Var að dunda mér við að gera flokkunarverkefni í kvöld - gekk vel þó ég hafi klikkað smá á kanadískum antikhúsgögnum. Tók mér smápásu og las blogg um ævintýri Laugavegshlaupara. Hrikalega er þetta duglegt fólk.
Var á spennandi fundi um skjalamál í dag og var líka beðin um að gæda í dagsferð á morgun. En þar eru takmörkin - treysti mér ekki til að gæda á ensku. Sumsé dúllurnar mínar - það er sko nóg að gera fyrir duglegt fólk hér á Austurlandi.

laugardagur, júlí 12, 2008

Sjónvarpsgláp og flokkun

Komst í tæri við sjónvarp í gær og glápti bæði á The Body og á Men in Black. Hafði hvoruga myndina séð áður en lagði þetta mig því mörgum þótti myndin in Black alveg æðisleg og ég hafði gaman af henni. En - fyrir mörgum árum rakst ég á bókagagnrýni í norsku blaði um bókina The Body eftir Richard Ben Sapir og reyndi mikið til að ná í hana þá. Fékk hana aldrei en núna hef ég allavega séð bíómyndina og fannst efnið áhugavert. Gaman væri að vita af hverju bókin var svona illfáanleg þó hún þætti nógu merkileg til að gerð væri bíómynd um hana.
Sit hér heima og geri Flokkunarverkefni - fer í sumarpróf 22. ágúst. Ég held svei mér þá að mér þyki þetta jafn flókið og í haust - búin að gleyma nærri öllu. En ágætt að brýna heilann svolítið.

miðvikudagur, júlí 09, 2008

hlaupanámskeið

Mig klæjar alltaf dálítið í hlaupagenin. Sakna þess að geta ekki farið út að skokka. Fór þess vegna á hlaupanámskeið hjá Smára Jósafats upp á íþróttavelli. Ég gat náttúrlega ekki hlaupið spönn frá r... en lærði samt nokkur skemmtileg trix. Hann heldur því fram að maður geti hlaupið á meiðsla með þessari aðferð. Ætla að prufa. Hann var líka með taktmæli til að stilla af hlaupið. Það er líka sniðugt til að nota á hjóli. Ég skildi nefnilega ekki hvernig ég ætti stíga pedalana alltaf á sama hraða eins og Bryndís ofurhlaupari og járnkerling reyndi að kenna mér. Nú ætti það að vera auðvelt - ef ég er með taktinn í eyrunum. :)

þriðjudagur, júlí 08, 2008

Vatnslaust

Vatnslaust í 7. himni í marga klukkutíma - og þegar það loksins kom og átti að demba sér í kvöldbaðið þá var vatnið brúnt! yach! Vona bara það verði hægt að fara í sturtu í fyrramálið.

sunnudagur, júlí 06, 2008

Fardagafoss


Löbbuðum upp að Fardagafossi í dag í dásamlegu veðri. Vorum rosaheppin. Vorum alein á leiðinni upp og á bak við fossinn en mættum fólki þegar við vorum á leiðinni upp frá fossinum og svo var strolla af fólki á leið upp. Þetta var frábært - svolítið smeik efst uppi - ég er jú alveg hryllilega lofthrædd en það eru keðjur þar sem erfiðast er svo þetta var leikur einn. Bjössi hljóp þetta auðvitað á sandölunum og prílaði fremst á allar klettasnasir - og leit ekki við keðjunni. Það sést ekki - en þarna sit ég í miðjum regnboganum - hann var hringinn í kringum mig. Sá samt ekki gullpottinn. Skrifuðum í gestabókina sem er fyrir framan hellinn - en kassinn sem gamla gestabókin var í inni í hellinum er brotin og allt blautt í honum. Okkur var sagt af staðkunnugum að það hefði á árum áður alltaf verið hreinsað grjót úr hellinum en það hefði ekki verið gert síðustu ár. Og það hafði víst hrunið mikið í fyrravetur. Fórum svo og kíktum á lóð svolítið fyrir utan Egilsstaði. Gasalega fín - allavega í svona yndislegu veðri.

laugardagur, júlí 05, 2008

torfæra

torfærusúkkan ógurlega Frábærlega skemmtileg torfæra hér á Egilsstöðum í dag. Þurfti ekki að hafa áhyggjur af veðrinu. Það var rjómablíða - þó það færi að blása svolítið seinnipartinn - Við erum orðin svolítið Majorkalegri á litinn en við vorum í gær.
Brautirnar voru erfiðar - fengum 2-3 glæsiveltur og held að það hafi bara verið einn sem kláraði eina brautina. Var skotnust í Súkkunni sem var að halda upp á afmæli eigandans. Súkkan var svosem ekkert kraftmikil og komst ekki langt en stóð sig samt ágætlega.
Við höfðum hugsað okkur að fara í útilegu eftir torfæruna - í þessari líka blíðu. Keyrðum niður Hróarstunguna en lentu þar í þoku sem elti okkur upp á Egilsstaði. Svo grillmaturinn var steiktur á pönnu og það verður sofið heima í nótt.

föstudagur, júlí 04, 2008

þoka

Húsasmiðjan er horfin - skyggni vægast sagt takmarkað. Það hefur verið mikið um þoku síðustu daga og veröldin breytist ótrúlega við það. Í morgun hurfu til dæmis húsin á Egilsstaðatorfunni en hattaði fyrir hæð og klettum og trjánum. Var svolítið eins og málverk eftir finnskan meistara. Vona bara að það verði ekki svona á torfærunni á morgun - panta svona eins og það var þegar ég kom heim úr vinnunni í gær. Brakandi blíða og verulega hlýtt og yndislegt - alvöru Egilsstaðaveður.