Einu sinni fyrir langalöngu átti ég heima á Klapparstíg 17, þar sem brann í nótt. Bjó uppi í risi í tveimur herbergjum með kærastanum mínum. Pabbi hans og mamma áttu heima á miðhæðinni. Þetta var gamalt hús. Ég var bæði draughrædd og eldhrædd í því. Var búin að hugsa upp hvernig ég ætti að komast út ef það kviknaði í. En tengdamamma sagði að það væru engir draugar þarna. Hún var - og er trúlega ennþá mjög næm. Ég trúði henni og vissi að brakið í stiganum væri bara að þrepin væru að taka sig eftir að ég hafði labbað upp. En samt - mér leið aldrei vel þarna ef ég var ein. Eigi að síður hefur mér alltaf þótt vænt um þetta hús og horfi ástúðlega á það þegar ég labba framhjá. Ég á góðar minningar um frumraunir í eldamennsku og pönnukökubakstur án mjólkur - en við áttum piparmyntulíkjör. Litlu systkini kærastans neituðu að borða pönnukökurnar því þær voru grænar. En þær smökkuðust ágætlega. Upp í risi voru afskaplega fallegir steyptir ofnar sem ekki var hægt að kveikja í lengur. Voru þarna bara sem skraut. Hef oft hugsað um að ef ég eignaðist einhverntíman hús þá vildi ég eiga svona ofna.
p.s. Kærastinn er að sjálfsögðu fyrrverandi og tengdamamman fyrrverandi tilvonandi og mér er stórlega létt því enginn dó í brunanum í nótt.
föstudagur, janúar 16, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Small world, eh? Briet went to a party there last term - the MR girls held it. I love these wooden houses but don't think I would sleep easy in one.
Svo þetta var húsið sem þú bjóst í. Það eru hræðilegir þessir brunar.
Ástarkveðja, JóSk
Skrifa ummæli