mánudagur, apríl 16, 2007

Leysinginn

Í dag er 16 apríl. 16 dagar síðan Ríkisútvarpið varð ohf og 17 dagar síðan ég hætti að vinna. Hef aldrei haft jafn mikið að gera - og mikið rosalega er gaman. En ég finn það þegar ég kem í vinnuna að þar er ennþá gott að vera. Var á fjögurra daga Rope yoga kennaranámskeið um helgina. Það var alveg dásamlegt - yndislegt fólk á námskeiðinu og gott að vera í Listhúsinu. Á föstudaginn var kveðjupartí fyrir mig og nokkra aðra í vinnunni. Það var gríðarlega gaman, skemmtiatriði og ræður og sumar alveg bráðfyndar. Mætti samt ótrauð á kennaranámskeiðið klukkan 7.30 morguninn eftir - og fór þann dag í gegnum þrjá æfingar í reipum, flæðiæfingar og öndunaræfingar. Fann ekki fyrir þreytu fyrr en þetta var allt búið og ég á leið heim. Var komin í rúmið klukkan 21. En vaknaði eldhress morgunin eftir og áfjáð að læra meira.
Var á Austfjörðum frá 31. mars til 10. apríl. Vorum á opnunarhátíð hjá Alcoa og árshátíð um kvöldið. Buff spilað, gátum dansað allt kvöldið. Fékk ýmislegt veður á Austfjörðum. Gengum út í páskahelli á Norðfirði þann 1. apríl og fengum sólskin og logn og yndilega kyrrð þar. Fluttum okkur svo til Fáskrúðsfjarðar og gistum þar í góðri íbúð um páskana. Þar upplifði ég 20 stiga hita í algjörri blíðu og svo snjóaði næstu þrjá daga á eftir. En samt var ekki kalt. Kallarnir voru að veiða þarna inni á firðinum fyrir páska og rótuðu upp feitum og fallegum þorski og urðu svo að stoppa út af pásknum. Fiskurinn gengur víst alveg inní fjarðarbotn svona á vorin.